EN

John Adams: Harmonielehre

Sjálfur hefur John Adams lýst hinu mikilfenglega Harmonielehre sem trúarjátningu „á mátt tóntegundanna“. Það var fullsamið árið 1985 og hefur fyrir löngu skipað sér í flokk sígildra nútímaverka. Þannig eru flestir á því að það sé lykilverk í sögu bandarískrar naumhyggju. Gagnrýnandi breska tónlistartímaritsins Gramophone sagði einmitt að verkið væri það „næsta sem komist verður naumhyggju-sinfóníu“.

Hlustendum er hent beint í öldurótið þar sem hljómsveitin leikur sterka, endurtekna e-moll hljóma áður en við tekur viðkvæmari (aftur endurtekin) tónlist, en svo eru e-moll hljómarnir ítrekaðir – en hér er komið eitt einkenni verksins, það er að segja „æfing í hljómum“ eða Harmonielehre. Þessi hljómar skjóta aftur og aftur upp kollinum í þættinum og mynda þannig nokkur konar stef, milli þess sem hljómsveitin leikur eins konar millispil (e. chordial gates) þar sem tónskáldið leikur sér með tóntegundir með hætti sem er ekki alveg óskyldur verkum Schönbergs (Leon Kirchner, einn af kennurum Adams við Harvard, hafði einmitt verið nemandi Schönbergs). Kannski má lýsa þættinum sem bogalöguðum þar sem hann rís hæst um miðbikið með lýrísku stefi áður en honum lýkur með ítrekuðum e-moll hljómum, það er að segja stefinu sem við heyrðum í upphafi.

Næst tekur við lýrískur kafli (nefndur Sár Anfortas). Á þeim tíma sem Adams samdi Harmonielehre las hann verk Carls Jungs um frásögnina af Artúri konungi og sárið sem aldrei gat gróið. Við heyrum hér lýsingu tónskáldsins á þessari frásögn, sem rís hæst í tveimur risavöxnum hendingum, meðal annars nánast beinni tilvitnun í 10. sinfóníu Mahlers. Þá heyrum við afar lýrískt og glæsilegt trompetsóló í kaflanum; það hljómar yfir hljómsveitinni sem leikur litlar þríundir.

Lokaþátturinn (merkt Meistari Eckhardt og Quackie) hefst á nokkur konar barnagælu. Heiti kaflans er sótt í draum sem Adams dreymdi stuttu eftir að dóttir hans, Emily, fæddist en foreldrarnir kölluðu hana Quakie í stuttan tíma eftir fæðinguna. Í draumnum bar hin óljósa miðaldavera, Meistari Eckhardt, Emily á öxlum sér á meðan þau máluðu loftið í einni af gömlu dómkirkjunum. Barnagælan sem við heyrum í upphafi verður smám saman hraðari og hraðari og nær hámarki í nokkurs konar ölduróti brass og slagverks yfir pedal-hljómi í Es-dúr.