EN

John Adams: Must the Devil Have All the Good Tunes?

Þessi þriðji píanókonsert Johns Adams var frumfluttur af Yuju Wang og Fílharmóníusveitinni í Los Angeles undir stjórn Gustavos Dudamels í Los Angeles í mars 2019 en áður hafði hann samið konsertana Eros Piano (1989) og Century Rolls (1996). Heiti hans er sótt í fleyg orð sem oft eru eignuð siðbótarfrömuðinum Marteini Lúther: „Þarf skrattinn að eiga öll góðu lögin?“

Konsertinn er í þremur samhangandi þáttum og að mörgu leyti í hefðbundnu hratt-hægt-hratt formi. Píanistinn er að allan tímann (og hefur nóg að gera) og hefur strax leikinn með hljómsveitinni á bassatónum (merkt Gritty, funky, but in Strict Tempo). Þar leikur tónskáldið sér með ólíka taktboða, til að mynda 9/8 áður en tempóið sest í jafna taktboðann 4/4. Smám saman þykknar áferð tónsmíðarinnar um leið og umfang hennar vex. Við heyrum síkvika endurtekningu aðalstefsins (merkt Twitchy, Bot-like) þar sem „honký tonk“ píanóið tekur undir með sólistanum (við heyrum meðal annars óljósa tilvitnun í verk Henrys Mancinis, Peter Gunn). Smám saman þéttast tóntegundirnar og einleiksparturinn færist meira yfir í krómatík og einleikari og hljómsveit kallast á í óræðum hljómum.

Verkið færist saumlaust yfir í annan þáttinn (merkt Much Slower; Gently, Relaxed) þar sem við heyrum dempaða strengina leika undir fínlega skreytum einleikspartinum sem er í senn æðrulaus en um leið leitandi þar sem laglínan hleypur upp og niður með lýrískum hætti. Skyndilega erum við kominn yfir í lokaþáttinn (merkt Piú Mosso: Obsession / Swing) þar sem við hefjum leik í taktboðanum 12/8. Upphafið er dæmigerð naumhyggja en smám saman vex verkið og dafnar og þar sem við heyrum einleikspartinn færast jafnt og þétt í aukana um leið og hljómsveitin leikur þétt undir, oft á aukaslögum. Takið til að mynda eftir slagverkinu. Einleiksparturinn verður á endanum æsilegur og hleypur upp og niður eftir nótnaborðinu. Skyndilega heyrum við hljómsveitina halda þrisvar úti tóninum D (í áttundum) áður en einleikshljóðfærið ítrekar stef allt til enda konsertsins.

Þó svo að píanókonsertinn Must the Devil Have All the Good Tunes? sé ekki nema fjögurra ára gamalt verk hefur hann verið mikið leikinn, m.a. af Víkingi Heiðari Ólafssyni undir stjórn tónskáldsins, víða um heim. Honum hefur verið lýst sem „sprengigosi af orku og uppfinningasemi“, það er að segja sem ómótstæðileg blanda af virtúósatækni Liszts, djassi og „honký-tonk“ píanóspili.