EN

John Adams: Short Ride in a Fast Machine

John Adams (f. 1947) hefur um áratuga skeið verið eitt kunnasta tónskáld Bandaríkjanna. Hann er oft kenndur við naumhyggju eða mínímalisma, ásamt þeim Philip Glass og Steve Reich sem eru um áratug eldri. Naumhyggja spratt upp úr því sem kalla má „and-módernisma“ sjöunda áratugarins, óánægju ungra tónskálda með þá valkosti sem í boði voru, og hún reyndist eiga vísan stærri áheyrendahóp en flestar aðrar gerðir nútímatónlistar á síðari hluta 20. aldar. Eitt megineinkenni naumhyggjutónlistar er að hún er hröð og hæg í senn. Á ytra borði er síkvik hreyfing en breytingar á undirliggjandi tónefni gerast löturhægt. John Adams má raunar fremur telja „síð-naumhyggjutónskáld“, því að þótt stöðugur púls einkenni verk hans er hið kvika ferli endurtekningarinnar ekki eins áberandi og hjá þeim sem ruddu naumhyggjunni braut. Í stað þess vex tónlistin og nær hápunkti með ýmsu móti.

Meðal styttri hljómsveitarverka Adams er Short Ride in a Fast Machine (Stutt ferð í hraðskreiðu farartæki) sem ber undirtitilinn „lúðragjall [fanfare] fyrir hljómsveit“. Sinfóníuhljómsveitin í Pittsburgh pantaði verkið og flutti það í fyrsta sinn árið 1986. Michael Tilson Thomas stjórnaði þeim flutningi en fyrsta hljóðritun verksins kom á markað hjá Nonesuch-plötuforlaginu árið 1987 og þar lék Sinfóníuhljómsveitin í San Francisco undir stjórn Edo de Waart.

Adams hefur líkt verki sínu við upplifunina „þegar einhver býður þér far í frábærum sportbíl en þú sérð eftir því þegar hann er kominn af stað“. Vinur Adams átti hraðskreiðan ítalskan fararskjóta og bauð honum í bílferð um það leyti sem hann hóf að smíða verkið. Adams segir ferðina bæði hafa verið ánægjulega og ógnvænlega, og að hann hafi varla verið búinn að jafna sig á henni þegar hann tók að setja fyrstu tónana á blað. Meðal helstu einkenna verksins eru hrynbútar sem endurteknir eru hvað eftir annað, einkum í tifandi trékubbum sem gefa verkinu snaggaralegt yfirbragð. Verkinu má raunar skipta í fjóra hluta; í fyrsta og þriðja er hár trékubbur í forgrunni, lægri tónn einkennir annan hluta, en í lokakaflanum fær hljóðfærið loks hvíld. Adams segir annað einkenni verksins vera að hin stærri og dýpri hljóðfæri hljómsveitarinnar – túba, kontrabassi, kontrafagott, málmblástursdeildin – þurfi að „dansa búggí“ kringum hinn ósveigjanlega hryn trékubbsins. Það er ekki fyrr en í lok verksins, þegar kubburinn þagnar, að hinn eiginlegi lúðraþytur eða „fanfare“ losnar úr læðingi.