EN

John Dowland: If My Complaints Could Passions Move

John Dowland (1563–1626) var eitt af mestu söngvaskáldum sögunnar. Hann var afbragðs lútuleikari og samdi tæplega 100 sönglög við lútumeðleik sem njóta enn mikillar hylli. Lútusöngvar náðu einmitt yfirhöndinni á Bretlandseyjum um aldamótin 1600, þegar Dowland var að skapa sér orð sem tónlistarmaður. Þeir voru oft persónulegir í tjáningu og kveðskapurinn djúphugull. Í melankólskum söngvum Dowlands skín kjarninn í list hans í gegn. Margt bendir til að hann hafi hneigst til depurðar eins og heitið á einu lútuverka hans gefur í skyn: Semper Dowland, semper dolens (Ávallt Dowland, ávallt dapur).

Dowland var kaþólskrar trúar en en þegar útséð þótti um að hann fengi stöðu við hirð Elísabetar I. tók hann boði frá Kristjáni IV. konungi Danmerkur – og Íslands – sem var mikill áhugamaður um tónlist. Dowland starfaði við dönsku hirðina á árunum 1598–1606, samdi þar og spilaði auk þess sem hann kenndi konungi lútuleik. Hann hélt að lokum aftur til Lundúna en mátti bíða í sex ár eftir stöðu við konungshirðina. Lagið If My Complaints Could Passions Move er úr fyrsta sönghefti hans, First Booke of Songes and Ayres, sem kom út í Lundúnum árið 1597 og naut feykimikilla vinsælda. Í textanum kveðst ljóðmælandinn hafa þjáðst of lengi vegna ástar. „Sorg þín ómar enn í djúpum andvörpum mínum“, segir hann og fullyrðir að lokum: „Ég var tryggari ástinni en ástin mér.“