EN

John Williams: Stef uglunnar Hedwig (úr Harry PotterTM)

Fyrsta kvikmyndin um Harry Potter og félaga hans kom út árið 2001 og sló eftirminnilega í gegn, rétt eins og bækurnar höfðu gert. Með myndinni öðluðust leikararnir ungu, Daniel Radcliffe og Emma Watson, heimsfrægð og þessi ævintýraveröld varð ljóslifandi á hvíta tjaldinu. Fyrsta myndin hlaut til að mynda þrjár tilnefningar til Óskarsverðlauna og sjö framhaldsmyndir bættust við á næstu níu árum.

 Tónlistin leikur stórt hlutverk í myndunum um Harry Potter enda sjálfur John Williams (f. 1932) sem samdi hana og hefur hlotið fyrir hana fjöldann allan af viðurkenningum. Williams notar leiðsögustef í tónlist sinni, lætur meginpersónur og staði hafa eigin stef sem hafa sterkan blæ, þar á meðal meginstefið sem kennt er við ugluna Hedwig. Við heyrum stefið fyrst leikið undurblítt en svo sækir hljómsveitin í sig veðrið og verkið opnast í öllu sínu veldi.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður leikið tónlistina úr myndunum um Harry PotterTM, nú síðast á sérstökum Harry Potter-tónleikum árið 2021 þar sem tónlistin við fyrstu myndina, Harry Potter og viskusteininnTM, var flutt við kvikmyndina sjálfa. Í mars á næsta ári verður Harry Potter og leyniklefinn™ flutt með sama hætti á tónleikum SÍ.