EN

Jón Nordal: Adagio fyrir flautu, hörpu, píanó og strengi

Jón Nordal (f. 1926) er eitt ástsælasta tónskáld Íslendinga. Hann hefur á ferli sínum samið á fjórða tug stærri verka auk sönglaga sem eru greypt í huga Íslendinga. Jón stundaði nám hér heima, meðal annars hjá Árna Kristjánssyni píanóleikara og Jóni Þórarinssyni tónskáldi. Þaðan lá leiðin til Zürich þar sem Jón nam bæði píanóleik og tónsmíðar hjá Walter Frey og Willy Burkhard. Þessu fór fram árin 1949–1951 en Jón var áfram búsettur erlendis næstu árin, ýmist í Kaupmannahöfn, París eða Róm og sótti hann meðal annars fræg sumarnámskeið í Darmstadt. Þar komst Jón í kynni við helstu framúrstefnumenn samtímans, svo sem Stockhausen, Nono, Madera og Ligeti, ásamt því að verða fyrir miklum áhrifum af tónlist Weberns. Jón sneri aftur til Íslands árið 1957 og varð tveimur árum síðar skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík. 

Snemma var Jón undir áhrifum af tónlist Hindemiths en kennari Jóns og nafni, Jón Þórarinsson, hafði verið nemandi þýska meistarans og aðstoðarmaður um hríð. Þá reyndi Jón fyrir sér í raðtækni (seríalisma) en jafnan er talið að Adagio fyrir flautu, hörpu, píanó og strengi (1966) marki upphafið að hinum persónulega stíl sem Jón tileinkaði sér að lokum. Kannski má einmitt segja að með verkinu nái Jón að samræma bæði ströng vinnubrögð og frjáls. Yfirbragðið er alvarlegt og innhverft en undir niðri kraumar ákveðin spenna og jafnvel þó svo að tónheimur verksins láti lítið yfir sér er hann eftir sem áður tilfinningaríkur, einkum þar sem strengjum er teflt fram gegn tónmáli píanósins