EN

Jórunn Viðar: Ólafur liljurós

Tveimur árum eftir að Eldur var frumfluttur í Þjóðleikhúsinu leit annað samstarfsverkefni Jórunnar og Sigríðar Ármann dagsins ljós. Ólafur liljurós sem var sýndur í Iðnó sem hluti af metnaðarfullri dagskrá Leikfélags Reykjavíkur árið 1952 en teflt var saman glænýjum ballett fyrir hlé og glænýrri óperu, Miðlinum eftir Menotti eftir hlé.

Ólafur liljurós byggir á sagnakvæðinu gamla og segir af samskiptum Ólafs og hinna tælandi álfameyja. Þegar hljómsveitarverk Jórunnar kom út á plötu hjá Smekkleysu árið 2004 var rætt við tónskáldið í skemmtilegu viðtali í Morgunblaðinu en þar dró Jórunn upp eftirfarandi mynd af sögusviði og tónmáli:

„Verkið hefst á því að álfarnir standa fyrir utan hamarinn. Það er vetrarkvöld og tunglsljós og stirnir á hjarnið og Ólafur kemur ríðandi og bindur hestinn við staur. Þarna er tónlist við hópdans. Svo kemur út hin fyrsta álfamær og þar með fyrsti sólódansarinn. Sú var ekki Kristi kær. Hún var hundheiðin og það þarf ég að reyna að túlka með tónlistinni. Hún reynir við Ólaf og það gengur ekki því hann er kristinn maður. Þá hverfur hún á braut og hópdansinn heldur áfram. Þá kemur út önnur, sem heldur á silfurkönnu. Hvernig týpa er það? Um það verð ég að hugsa þegar ég sem tónlistina við hana og ég skal viðurkenna að ég geri hana dálítið erótíska. Hún er sjálfsagt með vín í könnunni… Og þannig koma þær hver af annarri.

Það sem ég varð að gera var að finna réttu tónlistina til að túlka þessar ólíku manngerðir. Þannig er tónlistin táknmál tónskáldsins og hans tjáningarform til að klæða hugsanir sínar í einhvern búning. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir hlusta á þetta verk, en hafa ekki dansinn fyrir augunum. Hafa söguna um Ólaf Liljurós í huga, því annars skilja þeir hvorki upp né niður í þessu“.