EN

José Pablo Moncayo: Huapango

José Pablo Moncayo (1912–1958) var mexíkóskur píanóleikari, slagverksleikari, tónskáld og hljómsveitarstjóri. Hann samdi tiltölulega fá verk en varð eigi að síður einn helsti forvígismaður þjóðlegrar tónsköpunar í Mexíkó á fyrri hluta 20. aldar, ásamt þeim Silvestre Revueltas og Carlos Chávez. Hann samdi Huapango árið 1941, að beiðni Chávezar, sem vildi hressilegt verk byggt á þjóðlegri tónlist Veracruz-svæðisins við Mexíkóflóa. Moncayo minntist þess síðar að hann hefði ferðast til Alvarado, héraðs þar sem gömul þjóðlagatónlist hefði varðveist sérlega vel, og að þar hefði hann safnað laglínum og hrynstefjum í nokkra daga. Huapango er mexíkóskur þjóðdans og Moncayo notar þrjú slík stef í verki sínu, sem enn í dag er eitt dáðasta hljómsveitarverk sem nokkurt mexíkóskt tónskáld hefur samið. Það er raunar auðskilið, enda geislar tónlistin af gleði og kátínu.