Joseph Bologne: Sinfónía í D-dúr
Joseph Bologne, Chevalier de Saint-Georges (1745–1799) átti einhverja ævintýralegustu ævi sem sögur fara af í klassískri tónlist. Hann var fæddur á eyjunni Guadeloupe í Karíbahafi, sem þá var frönsk nýlenda, sonur auðugs landeiganda og konu sem var þræll eiginkonu hans. Faðirinn gekkst við Joseph og sendi hann sjö ára gamlan til Frakklands í skóla. Þar hlaut hann fyrirtaks menntun og varð með tíð og tíma vinsælt tónskáld og hljómsveitarstjóri, stýrði meðal annars einni af helstu hljómsveitum Parísarborgar á þeirri tíð, Concert des Amateurs. Í dag er hans minnst sem fyrsta klassíska tónskáldsins af afrískum uppruna. Honum var líka fleira til lista lagt; hann var afburða skylmingakappi og var um skeið í lífvarðasveit konungs, þar sem hann hlaut riddaranafnbótina Chevalier.
Sem manni af afrískum uppruna voru Bologne ýmsar leiðir lokaðar; hann gat ekki erft tign föður síns, ekki kvænst aðalskonu, og þótt hann nyti virðingar sem tónlistarmaður þótti ekki hæfa að hann sæti í valdastöðum. Árið 1776 kom raunar til greina að Bologne yrði næsti stjórnandi Parísaróperunnar, en þrjár af leiðandi söngkonum óperuhússins skrifuðu bænarskjal til drottningar, Marie Antoinette, þar sem þær kváðust af samviskuástæðum ekki geta tekið við fyrirmælum frá „múlatta“ – og þótt drottningin hefði mætur á Bologne var annar ráðinn í starfið. Í kjölfarið hætti drottningin að mestu að sækja óperuna en kaus fremur smærri tónleika í Versalahöll, þar sem Bologne var tíður gestur eftir sem áður. Hann lék gjarnan fiðluröddina í sónötum sínum en hennar hátign lék með á píanó.
Franska byltingin gaf fyrirheit um jafnan rétt allra þegna þjóðfélagsins og Bologne tók virkan þátt í henni. Árið 1794 varð hann ofursti riddaraliðs sem aðeins var skipað svörtum mönnum og leiddi sveit sína til frækinna sigra. Hann gegndi líka herþjónustu á Haiti um skeið, en þegar hann sneri aftur til Parísar var hann hnepptur í fangelsi fyrir upplognar sakir og mátti dúsa þar í tæpt ár. Hann lést skömmu eftir að hann fékk frelsi á ný, aðeins 53 ára gamall.
Bologne samdi fjölda strengjakvartetta, tvær sinfóníur, sex gamanóperur, þrjár fiðlusónötur og fjórtán fiðlukonserta, svo aðeins fátt eitt sé talið. Sinfónían sem hljómar í kvöld er ein af tveimur slíkum ópus 11, og var upphaflega forleikur að óperunni L’Amant anonyme eða Nafnlausi elskhuginn. Hún er í þremur þáttum eins og tíðkaðist um þetta leyti; hinn fyrsti er hraður, sá næsti hægur og ljóðrænn, en lokakaflinn spriklandi fjörugur.