EN

Joseph Haydn: Píanósónata í C-dúr

Þegar nafn Josephs Haydn (1732–1809) ber á góma koma strengjakvartettar hans, sinfóníur og óratorían Sköpunin fyrst upp í hugann. Píanóverk hans skipta þó tugum og sjálfur var hann snjall hljómborðsleikari - að eigin sögn þó enginn galdrakarl. Stjórnaði hann ósjaldan verkum sínum frá hljómborðinu en ólíkt þeim Mozart og Beethoven samdi hann píanóverk sín ekki með eigin flutning í huga. Hljómborðverkin spanna nánast allan feril hans allt frá sembalverkunum sem hann samdi fyrir aðalborna  nemendur sína í Vínarborg um og uppúr 1750 til þriggja stóru sónatanna (Hob. 50­–52) sem urðu til í London rúmum fjórum áratugum síðar.

Árið 1760 gekk Joseph Haydn í þjónustu Esterházy-fjölskyldunnar og samdi tónverk sín um áratuga skeið ættmennum hennar og gestum til yndisauka. Fyrstu tveir húsbændur hans, prinsarnir Paul II Anton og Nikulás I, voru báðir tónelskir fagurkerar en það sama verður ekki sagt um Anton I (son þess fyrrnefnda og bróður þess síðarnefnda) sem tók við völdum árið 1790. Hann sagði upp samningum við flesta tónlistarmenn hirðarinnar og þó að Haydn væri ekki í þeim hópi var í raun ekki lengur þörf fyrir krafta hans þar á bæ.

Haydn var nú frjáls ferða sinna og tók fegins hendi boð um að koma til Englands þar sem hann dvaldi allt árið 1791 og fram á mitt næsta ár. Í þessari heimsókn og þeirri síðari (1794–95) samdi Haydn nokkur af helstu verkum sínum, þar á meðal 12 sinfóníur, sex strengjakvartetta og píanósónöturnar þrjár sem fyrr eru nefndar.

Hina glæsilegu C-dúr píanósónötu samdi Haydn fyrir Theresu Jansen Bartolozzi sem var framúrskarandi píanisti og eftirsóttur kennari í London á síðasta áratug 17. aldar. Hér gefur að heyra hvernig Haydn nýttir sér stærra tónsvið og aukna blæbrigðamöguleika hinna stóru og hljómmiklu Broadwood-hljóðfæra samanborið við minni og takmarkaðri hljóðfæri sem hann þekkti frá heimaslóðum.