EN

Joseph Haydn: Sellókonsert nr. 2 í D-dúr

Sellókonsertinn í D-dúr er sannkölluð sólskinstónlist og jafnframt gott dæmi um tök Josephs Haydn (1732–1809) á þeim klassíska stíl sem kenndur er við Vínarborg. Borgin
var heimkynni Haydns á uppvaxtarárum hans; hann fæddist í þorpi nálægt landamærum Austurríkis að Ungverjalandi en var aðeins átta ára þegar hann komst að sem kórdrengur við dómkirkju heilags Stefáns í Vín. Þar söng hann í níu ár en að þeim loknum tók við barningur við að hasla sér völl sem tónlistarmaður. Þótt Haydn væri auðvitað gagnkunnugur kirkjutónlist eftir árin sem kórdrengur, hafði hann ekki hlotið skipulega menntun í tónfræði eða tónsmíðum. Úr þessu bætti hann upp á eigin spýtur, meðal annars með því að kynna sér verk Carls Philipps Emanuels Bach ofan í kjölinn. Í um áratug vann Haydn fyrir sér í lausamennsku sem tónlistarkennari, hljóðfæraleikari og — smám saman — sem tónskáld. Hróður hans fór vaxandi og aðallinn, helsti vinnuveitandi tónlistar- manna þeirra tíma, sóttist eftir kröftum hans. Þar kom, árið 1761, að honum var boðin föst staða við hirð Eszterházy greifa þar sem hann átti eftir að starfa í hartnær þrjá áratugi.

Tveir sellókonsertar eru með vissu eignaðir Haydn, báðir samdir fyrir leiðandi sellóleikara við Eszterházy-hirðina. Þann síðari, sem við heyrum í kvöld, skrifaði Haydn fyrir Anontín Kraft sem upprunninn var í Bæheimi, nálægt Pilsen í núverandi Tékklandi. Kraft var ekki bara afburða hljóðfæraleikari heldur einnig liðtækt tónskáld og á 19. öld komst sá ruglingur á kreik að konsertinn væri saminn af honum, en ekki fyrir hann. Það var ekki fyrr en árið 1951, þegar eiginhandarrit Haydns að konsertinum fannst í geymslum Austurrísku þjóðarbókhlöðunnar í Vínarborg, að tekin voru af öll tvímæli um höfundinn.

Konsertinn einkennist af syngjandi laglínum (manni verður hugsað til kórdrengsins Haydns) en það þarf meira en meðal sellista til að koma hinum fágaða léttleika einleikshlutverksins til skila. Hljómsveitin er fremur léttskipuð að klassískum hætti: strengir, tvö óbó og tvö horn — og leikur ýmist undir eða með sellóinu (takið til að mynda eftir samleik einleikshljóðfærisins og 1. fiðlu í fyrsta þætti) nema í kadensunum þar sem hefðin bauð að einleikarinn léki lausum hala. Á tónleikunum í kvöld heyrist glæný kadensa fyrsta þáttar sem Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld SÍ, hefur samið fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur en Anna hóf einmitt sjálf tónlistarferil sinn sem sellóleikari.