EN

Joseph Haydn: Sinfónía nr. 99

Líkt og raunin var með Georg Friedrich Händel, olli Lundúnaferð straumhvörfum á ferli Josephs Haydn (1732–1809). Hann hafði verið í þjónustu Eszterházy-furstanna næstum öll sín fullorðinsár en aðstæður hans breyttust árið 1790 við andlát Nikulásar 1. Eszterházy sem verið hafði mikill áhugamaður um tónlist og haldið úti bæði hljómsveit og óperu við hirð sína. Arftaki Nikulásar, Anton, var ekki sama sinnis. Hann lagði hljómsveitina niður og leysti Haydn frá tónlistarstjóraskyldum sínum en hélt honum þó á launaskrá. Haydn var því á lausum kili, hugsandi sitt ráð, þegar hann fékk heimsókn frá Johanni Peter Salomon, þýskum fiðluleikara og hljómsveitarstjóra sem hélt úti tónleikaröð í Lundúnum. Salomon taldi Haydn á að fylgja sér til Englands og þangað komu þeir í ársbyrjun 1791. 

Lundúnaárin voru sælutími í lífi Haydns. Hann dvaldist þar í tvígang, fyrst 1791–92 og síðan 1794–95. Ólíkt því sem hann hafði áður reynt var hann sjálfs sín ráðandi og hafði umtalsverðar tekjur af tónsmíðum sínum. Hann samdi alls tólf sinfóníur (nr. 93–104) til flutnings í tónleikaröð Salomons sem haldin var í glæsilegum konsertsal við Hanover Square. Þessar sinfóníur þykja nú á dögum hátindur á tónsmíðaferli Haydns og sýna glöggt hvernig sinfóníuformið hafði þroskast í meðförum hans. Við hirð Eszterházys hafði Haydn aðgang að úrvals hljóðfæraleikurum, sem hann vann náið með, en hljómsveitin var lítil. Haydn gaf ríkan gaum að sérkennum ólíkra hljóðfæra og skóp ýmis samspilstækifæri innan sinfóníanna, lét blásarana til dæmis kasta á milli sín stefjum og vefa saman. Í Lundúnum var hljómsveitin stærri — og hér fór Haydn til dæmis í fyrsta sinn að nota klarínett í sinfóníum — en hann hélt áfram að vinna með ólíkan tónblæ hljóðfæranna, nýta hann í samspili og til þess að skapa tilbreytingu í úrvinnslu stefja.

Sinfónían í Es-dúr nr. 99 var samin árið 1793 og frumflutt 10. febrúar árið eftir þegar Haydn var nýkominn til Lundúna öðru sinni. Hann stjórnaði sjálfur flutningnum og verkinu var firna vel tekið. Fyrsti þáttur sinfóníunnar var klappaður upp og í umsögn dagblaðsins The Morning Chronicle sagði að „yfir öllu hefði ríkt hin undraverða, þrotlausa og háleita snilligáfa Haydns“.