EN

Julia Perry: A Short Piece for Orchestra

Julia Perry (1924–1979) fæddist í Kentucky og stundaði nám við hinn rómaða Westminster Choir College, þaðan sem hún lauk bæði bakkalár- og meistaragráðu í tónlist. Hún stundaði einnig framhaldsnám við Tanglewood og Juilliard, nam meðal annars hjá tónskáldinu Luigi Dallapiccola og um skeið í París hjá Nadiu Boulanger. Perry samdi ógrynni verka, meðal annars sjö sinfóníur, fiðlukonsert og píanókonsert. Ferill hennar og það hvernig tónlist hennar féll í gleymsku er áminning um að hæfileikar nægja ekki alltaf til að tryggja gott gengi. Perry var svört kona, og má fullyrða að ef verk hennar hefðu verið samin af karlmanni hefðu þau hljómað um allan heim svo áratugum skiptir. A Short Piece for Orchestra er frá árinu 1952 og var flutt af Fílharmóníusveit New York-borgar skömmu síðar. Þetta er áheyrilegt og kraftmikið verk í nýklassískum stíl sem verðskuldar að heyrast mun oftar.