EN

Kaija Saariaho: Klarínettukonsert
(D'om le vrai sens)

 

 

Kaija Saariaho (f. 1952) er eitt kunnasta tónskáld Finnlands og eitt dáðasta kventónskáld samtímans. Hún stundaði nám við Sibeliusar-akademíuna auk þess sem hún starfaði um árabil við IRCAM í París og hefur verið búsett þar í borg um áratuga skeið. Hún hefur næmt eyra fyrir tónblæ og litum, skapar dulúðuga stemningu og blandar oft saman rafhljóðum og lifandi tónlist. Eins og mörg tónskáld samtímans neitar Saariaho að láta draga sig í dilk: „Allt er leyfilegt,“ er haft eftir henni, „svo lengi sem það er gert smekklega.“

Klarínettkonsert Saariaho óx að nokkru leyti úr óperu hennar Adriana Mater frá árinu 2006. Klarínettparturinn í þeirri óperu er nokkuð viðamikill og henni þótti hljóðfærið tala til sín með öðrum hætti en áður. Hún hófst því handa við að semja konsert og sótti innblástur í runu sex veggteppa sem kallast „Stúlkan og einhyrningurinn“; þau voru ofin í Flæmingjalandi um 1500 og standa nú í Miðaldasafninu (Musée de Cluny) í París. Vegg- teppin sýna hefðarmey ásamt einhyrningi og ljóni sem standa henni til hvorrar handar. Fimm teppanna tákna skilningarvitin fimm en merking hins sjötta er óræð. Þar stendur stúlkan undir bláum tjaldhimni sem ber yfirskriftina „À mon seul désir“; þessi orð má túlka á ýmsa vegu en þau gætu merkt „Mín eina þrá“. Á meðan Saariaho vann að smíði verksins las hún sig til um túlk- anir á yfirskrift síðasta teppisins og hreifst af þeirri hugmynd að hugsanlega sé hún eins konar stafaleikur. Með sömu bókstöfum má mynda orðin „D'om le vrai sens“ – „Hið sanna skilningarvit mannsins“ – sem samkvæmt frönskum fræðingum miðalda var sjálft hjartað.

Þættir konsertsins eru sex talsins og eins og yfirskriftirnar gefa til kynna eiga þeir beina samsvörun í efni veggteppanna. Tón- listin er einkar fjölbreytt, stundum draumkennd og svífandi en einnig tilþrifamikil þegar svo ber við. Segja má að verk um skilningarvitin fimm henti vel hinu fingerða og blæbrigðaríka tónmáli höfundarins. Konsertinn er líka eins konar rýmislist því að einleikarinn stendur ekki kyrr fyrir miðju sviði eins og venja er heldur fer um víðan völl, er ýmist meðal áheyrenda eða uppi á sviði og þá á hinum ýmsu stöðum. Verkið er tileinkað Kari Kriikku sem vann náið með Saariaho að sköpun þess.