EN

Karol Szymanowski: Konsertforleikur

Karol Szymanowski (1882–1937) var á sinni tíð þekktasta tónskáld Póllands og náði sú frægð út fyrir landsteinana. Hann nam í heimalandinu og var snemma undir áhrifum rómantíska skólans en einnig sótti hann í smiðju Alexanders Skrjabíns. Síðar átti hann eftir að sækja sér innblástur til frönsku impressjónistanna og Richards Strauss áður en hann lagði tóntegundir nánast alveg til hliðar um tíma. Szymanowski var einnig ötull talsmaður yngri tónskálda í Póllandi og stofnaði meðal annars útgáfufélag sem hafði það hlutverk að gefa út samtímatónlist yngri kynslóðarinnar í Póllandi.

Szymanowski gat ekki gegnt herþjónustu í Norðurálfuófriðnum mikla en hellti sér þess í stað út í tónsmíðar, enda samdi hann fjölmörg verk á árabilinu 1914–1918. Auk þess notaði hann tímann til þess að lesa bæði heimspeki og sögu Grikklands hins forna. Hann hafði um tíma átt andstreymt í heimalandinu og ferðaðist því mikið; enn fremur bjó hann um tíma í Vínarborg.

Það var svo um og eftir 1920 að Szymanowski hallaðist æ meira í átt að notkun þjóðlegra stefja í tónsmíðum sínum. Áður hafði hann verið andsnúinn slíku en nýfengið sjálfstæði Póllands breytti öllu; nú skyldi reist á gömlum merg og með tónsmíðum sínum gat Szymanowski nú tekið þátt í að efla pólska þjóðarvitund. Szymanowski gegndi um tíma stöðu rektors Tónlistarháskólans í Varsjá en lést í Sviss í mars árið 1937.

Szymanowski er helst minnst fyrir sinfóníur sínar fjórar, tvo fiðlukonserta og svo óperunna um Roger konung (1924). Konsertforleikinn (op. 12) samdi hann hins vegar á árunum 1903–1905. Þar er hann undir miklum áhrifum frá Richard Strauss, enda um nokkurs konar æskuverk að ræða.