EN

Karólína Eiríksdóttir: Tokkata

Karólína Eiríksdóttir (f. 1951) stundaði tónsmíðanám hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík en hélt síðan til framhaldsnáms við háskólann í Ann Arbor, Michigan í Bandaríkjunum. Að loknu námi snéri hún aftur til Íslands og hefur verið atkvæðamikil í íslensku tónlistarlífi. Hún hefur samið fjölda tónverka af margvíslegu tagi, þar á meðal sinfóníur, óperur og balletta, og hafa verk hennar verið flutt víða um heim. Karólína hefur gert þrjú verk í samstarfi við myndlistarmennina Libiu Castro og Ólaf Ólafsson. Eitt þeirra, Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2008 og það var, ásamt verkinu Landið þitt er ekki til, framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins árið 2011.

Karólína hefur þrívegis verið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, í öll skiptin fyrir óperur: Mann hef ég séð, sem pöntuð var af Vadstena Akademien í Svíþjóð og frumflutt þar 1988, Maður lifandi – óperuleik um dauðans óvissan tíma, en hann var fluttur árið 1999 í Borgarleikhúsinu, og Magnus Maria, sem gerist árið 1705 og byggist á sögu frá Álandseyjum um stúlkuna Mariu sem vann fyrir sér sem músíkant á krám og brá á það ráð að klæðast karlmannsfötum til að fá betur borgað fyrir söng sinn. Síðastnefnda óperan var frumsýnd í Álandseyjum árið 2014.

Tokkata var samin að beiðni ungmennahljómsveitarinnar Orkester Norden með styrk frá NOMUS. Verkið er í einum þætti, sem skiptist þó í samtengdan forleik og aðalkafla. Eiginlega er hér á ferðinni eins konar konsert fyrir hljómsveit, því að allir hljóðfærahópar hljómsveitarinnar fá einhvern tíma tækifæri til að stíga fram í sviðsljósið. Verkið var frumflutt í Svíþjóð sumarið 1999 og síðar sama ár var það valið til flutnings á tónleikum í Philharmonie-salnum í Berlín í tilefni af opnun norrænu sendiráðanna þar í borg.