EN

Kenneth Fuchs: Konsert fyrir bassabásúnu

Kenneth Fuchs (f. 1956) er bandarískt tónskáld og prófessor í tónsmíðum við Connecticut-háskólann. Tónlist hans hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, ekki síst plötur með tónlist hans í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Lundúna, sem Naxos gefur út og hafa hlotið einkar góðar viðtökur. Fimmta útgáfan í þeirri röð hlaut Grammy-verðlaun árið 2018 sem besta klassíska safnplata. Tónlist Fuchs er fremur hefðbundin hvað tónmálið snertir, litrík og aðgengileg. Fuchs lærði tónsmíðar við Miami-háskólann og Juilliard-tónlistarháskólann í New York, og voru Milton Babbitt, David Diamond og Vincent Persichetti meðal kennara hans.

Konsertinn fyrir bassabásúnu var saminn að sameiginlegri beiðni frá 21 bassabásúnuleikara í Bandaríkjunum og Evrópu, og var David Bobroff, bassabásúnuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, einn þeirra. Verkið var frumflutt í Hollandi árið 2018 en hljómar nú á Íslandi í fyrsta sinn.