EN

Kjartan Ólafsson: Mar

Kjartan Ólafsson (f. 1958) lauk tónsmíðaprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1984, nam raftónlist um tveggja ára skeið í Hollandi og stundaði á árunum 1986 – 1995 tónsmíðanám hjá þeim Einojuhani Rautavaara og Paavo Heininen við Síbelíusarakademíuna í Finnlandi en þaðan lauk hann doktorsgráðu í tónlist. Verkaskrá Kjartans hefur að geyma um 200 tónsmíðar fyrir ólíka hljóðfærahópa og hljóðheima; kammersveitir, einleikshljóðfæri, raddverk, óperur, sinfónísk verk, leikhústónlist af ýmsum toga, raftónlist og poppsmelli. Frá árinu 1988 hefur Kjartan unnið að hönnun og þróun tónsmíðaforritsins CALMUS sem byggir m.a. á gervigreindartækni og er hannað sérstaklega fyrir nútímatónsmíðar og rannsóknir. Tónlist Kjartans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um heim allan og gefin út á plötum og streymisveitum.

Hljómsveitarverkið Mar var samið yfir fimm ára tímabil, á árunum 2016 til 2021. Verkið er tileinkað minningu finnska tónskáldsins Einojuhani Rautavaara sem lést árið 2016, um það leyti sem Kjartan var að hefjast handa við samningu þess. Rautavaara var ekki einungis eitt eftirsóttasta tónskáld Finna á seinni hluta 20. aldar heldur einnig áhrifaríkur kennari sem hafði djúpstæð áhrif á nemendur sína. Hann hvatti þá til að þróa sig áfram, prófa nýja hluti og finna sína rödd auk þess að miðla ríkulega af reynslubrunni sínum í hljómsveitarskrifum og margvíslegum tónsmíðaaðferðum en Kjartan segist hafa hugsað mikið til síns gamla lærimeistara í gegnum tónsmíðaferlið allt og til þeirra aðferða sem hann nam af honum.

Mar er samið fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit, frjálst og lausbeislað í formi og mætti jafnvel kalla fantasíu. „Ég vildi skapa hreyfingu, bylgjuhreyfingu, kannski segja megi að þetta sé bylgjuskotið litaferðalag,“ segir Kjartan sjálfur en líkt og titillinn gefur til kynna er hafið yrkisefni þessa hljómsveitarverks, tónskáldið nýtir sér ólíkar tónsmíðaaðferðir í því skyni að magna upp hvers kyns bylgjuhreyfingar, gárur, brimsjó og öldutoppa, með örum styrkleikabreytingum, yfirtónaröðum og ríkulegum litbrigðum í röddum þessa blæbrigðaríka hljóðfæris sem sinfóníuhljómsveitin er.  

Tónlist á Íslandi
Þetta er heimsfrumflutningur verksins.