EN

Leonard Bernstein: Glitter and be Gay

Bandaríska tónskáldið Leonard Bernstein (1918-1990) lítur til gamla heimsins í óperettu sinni Candide, en hún er byggð á samnefndri nóvellu franska upplýsingarhöfundarins Voltaires. Íslendingar þekkja verkið og samnefnda söguhetju þess undir nafninu Birtíngur í öndvegisþýðingu Halldórs Laxness. Verkið er háðsádeila sem fylgir hinum unga og bláeyga Birtíngi um veröldina í leit að glataðri ást sinni, aðalsmeynni Kúnígúnd. Hann lendir í margvíslegum raunum og það sem ber fyrir augu er ekki allt fallegt. Ekki er laust við að sú lífsafstaða unga mannsins sem kennari hans Altúnga hefur innrætt honum – að allt fari „á besta veg í hinum allra besta heimi“ – bíði hnekki við og við.

Þegar hér er komið sögu hefur hin glysgjarna Kúnígúnd ratað í miklar ógöngur í lífinu – hún neyðist til þess að lifa sem frilla tveggja framámanna í þjóðlífinu. Allt er þetta mikil ógæfa – nema ef vera skyldu glæsilegir skartgripirnir, loðfeldirnir og kampavínið sem fylgir hinum nýja lífsstíl. Hinn glæsilegi, hávirtúósíski og útflúraði söngur hennar, Glitter and be gay, er uppfullur af margræðni: Í senn harmkvein konu sem tapað hefur sæmd sinni og grátbroslegur lofsöngur um lystisemdir lífsins.

Óperetta Bernsteins fékk heldur dræmar móttökur á Broadway þegar verkið var frumsýnt 1956, en verkið var aftur sett á svið 1974 eftir miklar endurbætur, sló þá í gegn og nýtur enn mikilla vinsælda um heim allan.