EN

Leonard Bernstein: Sinfónískir dansar úr West Side Story

Leonards Bernstein (1918–1990) var í hópi litríkustu persónuleika í tónlistarheimi 20. aldarinnar og naut virðingar fyrir færni á hinum ýmsu sviðum tónlistar. Bernstein gerði sér far um að miðla þekkingu sinni til yngra fólks og gerði fjölda sjónvarpsþátta þar sem hann opnaði ungum áheyrendum töfraheim sígildrar tónlistar.

Aðeins 25 ára gamall tók hann við stöðu aðstoðarhljómsveitar­ stjóra New York fílharmóníunnar þar sem gifturíkur ferill hans á stjórnendapallinum byrjaði. Árið 1953 varð hann fyrsti bandaríski stjórnandinn til að stjórna sýningu í Scala­-óperunni í Mílanó. Hann var síðan tónlistarstjóri og stjórnandi New York­-fílharmóníunnar frá 1958–1969 og ferðaðist með henni víða um heim. Þá var Bernstein á ferli sínum aufúsugestur margra helstu hljómsveita heimsbyggðarinnar ­- ekki aðeins sem hljómsveitarstjóri heldur einnig sem píanisti og fræðari.

Verkalisti Leonards Bernstein er einkar fjölbreyttur og inniheldur balletta, óperur, leikhús­ og kvikmyndatónlist, hljómsveitar­ og kórverk, kammertónlist, söngljóð, píanóverk en síðast en ekki síst söngleiki sem urðu átta talsins. Þeirra þekktastur er West Side Story frá árinu 1957 sem strax sló eftirminnilega í gegn á Broadway. Sagan er sótt til líðandi stundar, nánar tiltekið í fréttaflutning af stríðandi glæpagengjum í New York. Snúið er upp á söguna af Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare en sögusviðið er Manhattan. Tvær klíkur berjast um völd í vesturhluta borgarinnar og tilveran kemst í uppnám þegar piltur og stúlka fella hugi saman þvert á viðurkennd landamæri.

Svítan Sinfónískir dansar úr West Side Story varð til veturinn 1960–61 og var hún frumflutt af New York-­fílharmóníunni stuttu eftir embættistöku Johns F. Kennedy sem forseta Bandaríkjanna í febrúar 1961. Svítan tengir saman níu aðskilda þætti úr West Side Story en þó ekki í upphaflegri tímaröð. Innan um fjöruga og á tíðum átakamikla tónlist sem dansað er við í söngleiknum, eða hún látin undirstrika viðburði í sögunni, glittir í kunnuglegar perlur eins og Somewhere og Maria sem nú er komin í cha­cha­cha­takt.