EN

Lili Boulanger: D’un matin de printemps

Lili Boulanger (1893–1918) var eitt efnilegasta tónskáld Parísarborgar á fyrstu árum 20. aldar. Faðir hennar var sjálfur tónskáld og kennari við tónlistarháskólann, og eldri

systir hennar, Nadia, varð síðar einn dáðasti tónlistarkennari Frakklands. Það var tónskáldið og fjölskylduvinurinn Gabriel Fauré sem uppgötvaði þegar Lili var aðeins tveggja ára gömul að hún hafði óbrigðula tónheyrn, og hún var rétt orðin fimm ára þegar hún fékk að fylgja systur sinni í kennslustundir við tónlistarháskólann. Árið 1912 hlaut hún þar fulla skólagöngu og hreppti Rómarverðlaunin ári síðar, aðeins nítján ára gömul, fyrir kantötuna Fást og Helen. Hún var fyrsta konan til að vinna þau sögufrægu verðlaun, en þeim fylgdu þriggja ára starfsdvöl í Róm og meðal þeirra sem áður höfðu hlotið þann heiður má nefna Berlioz, Bizet og Debussy.

Lili Boulanger naut því miður aldrei hæfileika sinna til fulls. Hún hafði glímt við heilsubrest frá því að hún sýktist af berkju- lungnabólgu í barnæsku og þar sem veikindin tóku sig upp í Róm varð dvölin þar skemmri en ætlað var. Hún lést aðeins tuttugu og fjögurra ára gömul og má fullyrða að hún hefði
orðið eitt áhugaverðasta tónskáld Frakklands á 20. öld hefðu örlögin ekki verið henni andsnúin. Hún hafði meðal annars í smíðum óperu, La Princesse Maleine (eftir samnefndu leikriti Maeterlincks), sem lá ófullgerð við andlát hennar. Eitt síðasta verkið sem Lili samdi var D’un matin de printemps, glaðvær og á köflum íhugul vorstemning sem vitnar um bæði framúrskarandi hæfileika og sjálfstæða rödd, þótt greina megi áhrif frá bæði Fauré (sem var tónsmíðakennari hennar) og Debussy.

Þess má til gamans geta að þótt verk Boulanger hafi ekki hljómað á Íslandi fyrr en löngu síðar birtist frásögn um hana í Kvennablaðinu, sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir gaf út, í september 1913 undir yfirskriftinni „Framfarir í kvenréttindamálum.“ Þar segir meðal annars: „Af því margir fullyrða að konur skari aldrei fram úr í neinni grein, þá skulu hér taldar upp nokkrar konur, sem skarað hafa fram úr í ýmsum greinum nú á síðari árum og fengið hafa viðurkenningu frá ýmsum „æðri skólum“. Nú er skrifað frá París, að Mlle. Lili Boulanger hafi í ár unnið stóru Róma-verðlaunin — „Grand prix de Roma“ — fyrir hátíðaflokkssönglög — cantate — sem hún hafði búið til. Stóru Róma-verðlaunin veita þeim, sem fá þau, rétt til að búa á kostnað franska ríkisins 3 ár í Róm, í villu sem franska ríkið á á Monte Pincio.“