EN

Beethoven: Píanókonsert nr. 1

Þegar Ludwig van Beethoven (1770–1827) ákvað að freista gæfunnar í Vínarborg síðla árs 1792 hafði hann þegar skapað sér nafn sem einn eftirtektarverðasti píanisti ungu kynslóðarinnar. Hann kom fram opinberlega í fyrsta sinn átta ára gamall, og þremur árum síðar birtist stutt umfjöllun um piltinn í tímaritinu Magazin der Musik: „Hann leikur sérdeilis vel á píanóið og með miklum krafti, er fljótur að lesa beint af blaði og hefur mest gaman af að leika Das Wohltemperierte Klavier eftir Sebastian Bach.“ Það sem gerði leik Beethovens sérlega eftirminnilegan var framúrskarandi tækni í bland við sterka skapgerð og innilega túlkun. Jafnvel eftir að Beethoven hafði misst heyrnina settist hann gjarnan við Broadwood-flygil sinn og virtist gleyma stund og stað. Breskur ferðalangur sótti Beethoven heim árið 1821 og lýsti píanóleik hans með þessum orðum: „Á því augnabliki sem hann sest við píanóið er eins og hann sé fullkomlega ómeðvitaður um að nokkuð sé til í heiminum annað en hann og hljóðfærið.“

Frumsamdir píanókonsertar voru kjörinn vettvangur fyrir hæfileikaríkan ungan mann til að koma sér á framfæri í stórborginni. Píanókonsertinn átti sér ekki ýkja langa sögu sem tónlistargrein, hafði í raun fyrst náð fullkomnun með röð stórfenglegra konserta sem W.A. Mozart samdi á árunum 1785–86. Þegar Beethoven kom til Vínarborgar hafði hann píanókonsert í farteskinu – þann í B-dúr, sem hann hóf líklega að leggja drög að á árunum 1785–87. Svo virðist sem hann hafi fullgert konsertinn nokkrum árum síðar, og ekki leið á löngu þar til nýr konsert bættist við, sá í C-dúr, saminn 1795.

Á tímum Beethovens sáu útgefendur um að gefa verkum tónskálda svokölluð ópusnúmer og var þá ekki farið eftir tilurðartíma verkanna heldur útgáfu þeirra. Beethoven vildi vitaskuld slá í gegn með fyrsta píanókonserti sínum sem gefinn yrði út á prenti. Því varð C-dúr konsertinn fyrir valinu; hann er viðameiri og metnaðarfyllri tónsmíð en sá í B-dúr. C-dúr konsertinn kom út í mars 1801 en B-dúr konsertinn fylgdi í kjölfarið í desember sama ár. Þannig stendur á því að fyrsti fullgerði píanókonsert Beethovens – sá í B-dúr – fékk hærra ópusnúmer og hefur æ síðan verið kallaður „nr. 2.“ 

C-dúr konsertinn op. 15 er dramatískur og glæsilegur í senn. Fyrsti þáttur hefst á blíðu og syngjandi stefi en ekki líður á löngu þar til pákur og trompetar bætast við. Líkt og í B-dúr konsertinum eru tóntegundatengslin með því nýstárlegasta sem hlustendur í Vínarborg höfðu komist í tæri við, en ávallt tekst Beethoven að koma sér fyrirhafnarlaust til baka á upphafsreit. Úrvinnsla fyrsta þáttar minnir öll á draumkennda undraveröld, með skölum og hljómum í örveikri dýnamík út í gegn.

Hægi kaflinn er kyrrlát og tregablandin hugleiðing og minnir um margt á Adagio-þáttinn úr Pathétique-píanósónötunni sem Beethoven samdi fáeinum árum síðar. Í fjörugum rondóþættinum ríkir sprell og gamansemi. Margir telja sig heyra áhrif frá sígaunatónlist í spriklandi millikafla í moll, en annað sem fyrir eyru ber er dæmigert fyrir Beethoven, m.a. óvæntar áherslur á veika takthluta og brött tóntegundaskipti sem fara langt í báðar áttir frá hinni miðlægu heimatóntegund.