EN

Ludwig van Beethoven: Píanókonsert nr. 2

Þegar Ludwig van Beethoven (1770–1827) ákvað að freista gæfunnar í Vínarborg síðla árs 1792 hafði hann þegar skapað sér nafn sem einn eftirtektarverðasti píanisti ungu kynslóðarinnar. Hann kom fram opinberlega í fyrsta sinn átta ára gamall, og þremur árum síðar birtist stutt umfjöllun um piltinn í tímaritinu Magazin der Musik: „Hann leikur sérdeilis vel á píanóið og með miklum krafti, er fljótur að lesa beint af blaði og hefur mest gaman af að leika Das Wohltemperierte Klavier eftir Sebastian Bach.“ Eftir því sem Beethoven náði frekari þroska ber heimildum saman um að ásamt framúrskarandi tækni hafi sterk skapgerð og innileg túlkun gert leik hans einstaklega eftirminnilegan. Jafnvel eftir að Beethoven hafði algerlega misst heyrnina settist hann gjarnan við Broadwood-flygil sinn og virtist gleyma stund og stað. Breski ferðalangurinn Sir John Russell sótti Beethoven heim árið 1821, og lýsti píanóleik hans með þessum orðum: „Á því augnabliki sem hann sest við píanóið er eins og hann sé fullkomlega ómeðvitaður um að nokkuð sé til í heiminum annað en hann og hljóðfærið.“

Það gefur auga leið að frumsamdir píanókonsertar voru kjörinn vettvangur fyrir jafnhæfileikaríkan ungan mann til að koma sér á framfæri í stórborginni. Píanókonsertinn var rétt í þann veginn að slíta barnsskónum sem tónlistarform, og hafði í raun fyrst náð fullkomnun með röð stórfenglegra konserta sem W.A. Mozart samdi á árunum 1785-86. Um svipað leyti hafði hinn þrettán ára gamli Beethoven gert sína fyrstu tilraun með konsertformið. Skissur Beethovens að píanókonsert í Es-dúr frá árinu 1783 – sem hann lauk aldrei við og var ekki gefinn út meðan hann lifði – sýna mikla hæfileika en afhjúpa um leið ákveðið kunnáttuleysi sem hann var fljótur að bæta úr. Þegar Beethoven kom til Vínarborgar hafði hann annan píanókonsert í farteskinu – þann í B-dúr, sem hann hóf líklega að leggja drög að á árunum 1785-87. Á fyrstu árum sínum í Vínarborg fór tími Beethovens aðallega í að endurskoða og lagfæra eldri verk, og svo virðist sem hann hafi fullgert konsertinn um 1793-94, og haldið áfram að lagfæra smáatriði í nokkur ár í viðbót.   Ekki leið heldur á löngu þar til nýr konsert bættist í hópinn, sá í C-dúr, saminn 1795.

Á tímum Beethovens voru það útgefendur sem gáfu verkum „ópusnúmer,“ og var þá ekki farið eftir tilurðartíma verkanna heldur útgáfutíma þeirra.  Beethoven vildi vitaskuld „slá í gegn“ með fyrsta píanókonserti sínum sem gefinn yrði út á prenti. Því varð C-dúr konsertinn fyrir valinu, enda er hann viðameiri og metnaðarfyllri tónsmíð en sá í B-dúr. C-dúr konsertinn kom út hjá Hoffmeister-forlaginu í mars 1801, og B-dúr konsertinn fylgdi í kjölfarið í desember sama ár. Þannig stendur á því að fyrsti fullgerði píanókonsert Beethovens – sá í B-dúr – fékk hærra ópusnúmer og hefur æ síðan verið kallaður „nr. 2.“  

„Ekki eitt minna bestu verka,“ skrifaði Beethoven útgefanda sínum varðandi píanókonsertinn í B-dúr op. 19, og bauð helmingsafslátt af þeirri upphæð sem hann hafði áður fengið fyrir septettinn og fyrstu sinfóníuna. Vissulega er B-dúr konsertinn ekki jafn viðamikill eða djarfur og þeir sem fylgdu í kjölfarið. Hann er engu að síður fullur af frísklegum hugmyndum sem sýna hvort tveggja: þakkarskuld Beethovens við Mozart, og sjálfstæða rödd ungs og stórhuga tónlistarmanns. Beethoven nýtur þess að bregða á leik og gera lítið úr væntingum hlustandans; að loknu upphafsstefi hljómsveitarinnar, sem er háklassískt og mjög í anda Mozarts, læðist Beethoven á lúmskan hátt yfir í óhefðbundna tóntegund með því að færa afgerandi lokatóninn upp um hálfan tón, pianissimo.

Annar kaflinn er einn hinna djúphugulu hægu þátta Beethovens þar sem tíminn virðist standa í stað. Carl Czerny, nemandi Beethovens og höfundur fjölmargra fingraæfinga fyrir upprennandi píanista, lýsti kaflanum sem dramatískri aríu, enda fær píanistinn að láta hljóðfæri sitt syngja á einstaklega heillandi máta. Víða er að finna óvenjuleg tilþrif, eins og þegar píanistinn bætir við glitrandi skölum á meðan blásarar leika laglínuna við strengjaplokksundirleik. Kadensan undir lok þáttarins er ekki síður einstök. Hljómsveitin stöðvast á hefðbundnum fersexundarhljómi, og píanóleikarinn kemur inn, ofurveikt, með hægri hendina eina, „con gran espressione.“ Hér renna söngur og hljóðfæraleikur saman í eitt, píanistinn syngur einlægt resítatív og hljómsveitin minnir okkur á upphafsstefið inn á milli. Sambærilegur „hljóðfæra-óperusöngur“ í Stormsónötunni op. 31 nr. 2 og níundu sinfóníunni virðast þegar innan seilingar. Lokaþátturinn er glaðvært rondó þar sem Beethoven grínast með skakkar áherslur í aðalstefinu og bregður auk þess af og til fyrir sig exótískum „alla turca“ skrautnótum í anda Mozarts.