EN

Beethoven: Píanókonsert nr. 3

Í fyrstu tveimur píanókonsertum sínum hafði Ludwig van Beethoven (1770–1827) fetað samviskusamlega í fótspor Mozarts hvað varðaði form og uppbyggingu. Þriðji píanókonsertinn er að öllu leyti nýstárlegri og greinilegt að Beethoven hefur fundið sína eigin rödd. Hann samdi konsertinn milli 1797 og 1800, og frumflutti hann á stórum tónleikum í Vínarborg 1803, þar sem sinfónía nr. 2 og óratórían Kristur á Olíufjallinu voru einnig frumflutt. Raunar var konsertinn varla tilbúinn við frumflutninginn, því að Ignaz von Seyfried, sem fletti nótum tónskáldsins, átti fullt í fangi með að fylgja leynilegum bendingum hans: „Guð hjálpi mér! Þetta var hægara sagt en gert, því að ég sá varla neitt nema auð nótnablöð, í mesta lagi nokkur torkennileg merki á einni og einni síðu, sem voru eins og egypsk myndtákn fyrir mér en gögnuðust honum sem einhvers konar minnispunktar. Eins og svo oft áður hafði honum ekki gefist tími til að skrifa allt niður á blað. Hann gaf mér leynilegt augnaráð þegar hann var kominn að lokum þessara ósýnilegu kafla og hafði greinilegt gaman af augljósum kvíða mínum yfir að missa af bendingunum. Eftir tónleikana snæddum við saman kvöldverð og hlógum dátt að öllu saman.“ 

C-moll var tóntegund sem Beethoven notaði margoft, m.a. í Pathétique-sónötunni, Coriolan-forleiknum og fimmtu sinfóníunni. Þriðji konsertinn á það sameiginlegt með þessum tónsmíðum hans, og öðrum í sömu tóntegund, að vera tilfinningaþrungið verk og afgerandi á allan hátt. Allt frá spennuþrungnu upphafinu, sem leikið er veikt af strengjum, er ljóst að hér er eitthvað sérstakt á ferðinni. Seinna stef fyrsta kaflans er hins vegar undurblítt og ljóðrænt, og fyrsti þátturinn í heild vegur salt milli spennu og slökunar. Miðkaflinn hefst á ómþýðri hugleiðingu einleikarans, en eftir að hljómsveitin tekur við stefinu spinnur píanistinn skrautþræði sem nýta eiginleika hljóðfærisins til hins ýtrasta. Flautu- og fagottdúó yfir lágværum arpeggíum slaghörpunnar er sérlega eftirminnilegt í þessu samhengi. Síðasti kaflinn er brúnaþungur í byrjun, en að lokum nær glaðværðin yfirhöndinni og konsertinum lýkur í sprellfjörugum C-dúr.