EN

Beethoven: Píanókonsert nr. 4

Það hefði óneitanlega verið gaman að vera fluga á vegg í Theater an der Wien 22. desember 1808. Þá hélt Ludwig van Beethoven (1770–1827) risatónleika og ekki var efnisskráin skorin við nögl. Þarna heyrðust í fyrsta sinn fjórði píanókonsertinn og fimmtu og sjöttu sinfóníurnar, en einnig fantasían fyrir kór og píanó, konsertarían Ah, perfido og þrír þættir úr messu í C-dúr. Einnig lék Beethoven af fingrum fram fyrir áheyrendurna og er talið að fantasían fyrir einleikspíanó op. 77 eigi rætur að rekja til þessa spunaspils tónskáldsins. Tónleikarnir voru merkisviðburður ekki aðeins vegna þeirra tónverka sem þarna voru kynnt til sögunnar heldur af því að þarna tróð einn mesti píanóleikari síns tíma upp opinberlega í síðasta sinn. Heyrnarleysið sem hafði hrjáð Beethoven í tæpan áratug var orðið meira en svo að hann gæti haldið áfram spilamennsku sinni eins og ekkert hefði í skorist.

Beethoven hóf að leggja drög að píanókonserti sínum nr. 4 árið 1805 og lauk við hann snemma árs 1806. Hann virðist ávallt hafa litið á G-dúr sem ljúfa og afslappaða tóntegund. Hann samdi aldrei sinfóníu í G-dúr og hvorki finnast síðkvartettar né síð-píanósónötur í þessari tóntegund. Fjórði píanókonsertinn er enda langt frá hetju-ímyndinni sem oft er dregin upp af verkum Beethovens. Tónsmíðar hans á miðtímabilinu svokallaða eru oft kallaðar til vitnis um stórfengleg átök listamannsins við sitt innra sjálf, sem fengu útrás t.d. í fimmtu sinfóníunni eða Appassionata-sónötunni fyrir píanó. En í öðrum verkum frá sama tíma, t.d. fiðlukonsertinum, sjöttu sinfóníunni og fjórða píanókonsertinum, fer Beethoven um áður ókannaðar víddir ljóðrænnar tjáningar. Þó er ekki þar með sagt að þessi verk séu síður „byltingarkennd“ en hin fyrrnefndu – á sinn hátt. 

Frægastur er fjórði konsertinn vafalaust fyrir upphafstaktana. Í klassískum konserti tíðkast að hljómsveitin kynni helstu stef þáttarins hvert á fætur öðru. Síðan bætist sólistinn við og þá er farið aftur í gegnum allt saman, nema skipt um tóntegund þegar komið er hálfa leið. En í fjórða píanókonserti Beethovens ber nýrra við. Aldrei fyrr hafði einleikarinn byrjað konsert einn og óstuddur, og veikt í ofanálag. Enn þann dag í dag er hægt að telja á fingrum annarrar handar „stóru“ konsertana þar sem sólistinn hefur leikinn einn síns liðs, og allir voru þeir samdir á 20. öld: annar píanókonsert Rakmaninoffs, fyrsti fiðlukonsert Bartóks og annar fiðlukonsert Prokofieffs, annar sellókonsertinn eftir Sjostakovitsj – og nokkrir sjaldheyrðari eftir Schönberg, Bernstein og fleiri.

Í grískri goðafræði er sagt að Orfeus hafi getað tamið villidýr með lútuleik sínum og komu þær gáfur sér vel þegar hann þurfti að heimta hina fögru Eivridís úr helju. Þýski tónlistarfræðingurinn A.B. Marx, sem var uppi á fyrri hluta 19. aldar, var fyrstur til að bendla hæga þátt fjórða píanókonsertsins við hina gömlu sögn um Orfeus og villidýrin. Ekkert bendir til þess að þessi túlkun sé komin frá Beethoven sjálfum, en kaflinn er svo óhefðbundinn að skýringin virðist hreint ekki fráleit. Samtalið milli einleikara og hljómsveitar sem hér á sér stað á sér enga hliðstæðu. Strengirnir (villidýrin?) eru afgerandi með voldugum punkteruðum rytmum sem minna á franskt barokk. Píanistinn (Orfeus?) svarar með undurblíðum hljómum og heldur veikapedalnum niðri allan tímann samkvæmt fyrirmælum tónskáldsins. Smám saman rennur strengjunum reiðin; Orfeus hefur framið list sína enn á ný.

Lokaþátturinn er glaðvært rondó sem hefur að geyma bæði sinfóníska breidd og ljóðrænu fyrsta þáttar, með tveimur aðalstefjum sem snúa sífellt aftur en í nýju gervi í hvert sinn.