EN

Beethoven: Píanókonsert nr. 5

Keisarakonsertinn

„Ekkert nema trommusláttur, fallbyssudrunur og mannleg eymd hvert sem litið er!“ Þannig lýsti Ludwig van Beethoven (1770–1827) ástandinu í Vínarborg vorið 1809 þegar herir Napóleons héldu uppi stöðugum árásum á borgina. Það vildi svo óheppilega til að íbúð Beethovens stóð einmitt þar sem bardagarnir voru mestir. Hann dvaldi að minnsta kosti eina nótt í kjallara bróður síns í Rauhensteingasse, þar sem hann hélt um eyrun með koddum til að hlífa því sem eftir var af heyrninni. Keisarafjölskyldan flýði borgina, þeirra á meðal Rúdolf erkihertogi, sem var bróðir keisarans og eini tónsmíðanemi Beethovens. 

Fimmti píanókonsertinn var sá eini sem Beethoven gat ekki frumflutt sjálfur vegna heyrnarskorts. Þó beið hann í þrjú ár með að láta flytja hann, í þeirri veiku von að heyrnin kynni að batna. Að lokum var það nemandi Beethovens, Carl Czerny, sem frumflutti konsertinn í Vínarborg 1812. Konsertinn náði fljótt vinsældum og snemma á 19. öld sagði enska tónskáldið J.B. Cramer að hann væri „keisari konsertanna.“ Nafnið er enn notað, enda vart hægt að hugsa sér „konunglegri“ tónlist en þá sem Beethoven kreisti fram úr hljóðfæri sínu á tímum eymdar og stríðshörmunga. 

Keisarakonsertinn er stórfenglegt virtúósastykki. Beethoven nálgast konsertformið á allt annan hátt en í fjórða konsertinum sem er innilegur og hefur oft á sér blæ kammertónlistar. Í hinum fimmta fær einleikarinn hvert tækifærið á eftir öðru til að sýna listir sínar, allt frá upphafstöktunum. Þetta er í sjálfu sér nokkuð óvenjulegt. Yfirleitt kynnir hljómsveitin aðalstef fyrsta þáttar áður en einleikarinn lætur til sín taka, en hér er eins og píanistinn geti ekki beðið eftir að hefjast handa. 

Hægi kaflinn hefst á innilegu og hjartnæmu stefi í strengjunum. Yfir hljóma og laglínubrot hljómsveitarinnar spinnur einleikarinn fíngert skraut sem deyr út að lokum. Skyndilega sekkur tóntegundin um hálftón og píanistinn leikur nýtt stef, hikandi í fyrstu. Þetta reynist vera upphafsstefið að hinum fjöruga rondókafla. Rondóstefið snýr sífellt aftur, í ólíkum tóntegundum, og í hvert skipti er það upphafið að mikilli flugeldasýningu einleikarans. Niðurlag kaflans er harla óhefðbundið. Einleikarinn leikur skala og hljóma, en öll hljómsveitin þegir nema hvað sami hrynur heyrist hvað eftir annað í pákum. Þegar verkið virðist hreinlega vera að fjara út tekur píanistinn sig til og þeytist að endamarkinu með hröðum og hnitmiðuðum tónstigahlaupum.