EN

Beethoven: Sex bagatellur

Ludwig van Beethoven (1770–1827) fann allan sinn feril þörf fyrir að semja bagatellur, eða smáræði (Kleinigkeiten) eins og hann kallaði þær, fyrir píanó. Hann geymdi þær í möppu og beið eftir heppilegum tímapunkti til að gefa þær út. Fyrsta heftið sem hafði að geyma sjö bagatellur birtist fyrst á prenti árið 1803. Sumarið 1822 fékk Beethoven beiðni frá útgefandandanum Carl Friedrich Peters um að semja fleiri bagatellur fyrir píanó. Beethoven, sem var önnum kafinn við vinnu að Missa Solemnis og 9. sinfóníunni sinnti beiðninni ekki fyrr en í febrúar árið eftir og sendi Peters sex bagatellur sem í dag eru þekktar sem þær fyrstu af ellefu op. 119. Peters brást hinn versti við - sagðist ekki vilja trúa að þetta léttmeti væri eftir Beethoven og neitaði að gefa þær út. Tónskáldið sneri sér þá til fyrrum nemanda síns, Ferdinands Ries sem bjó í London, og voru bagatellurnar sex ásamt fimm öðrum gefnar út í borginni af tónskáldinu og útgefandanum Clementi. Titlill heftisins hljóðaði-  Smáræði fyrir píanó sem innihalda ellefu geðfelld stykki samin í mismunandi stíltegundum af L. van Beethoven. Ekki voru allir samtímamenn sammála skoðunum útgefandanum Peters og birtist eftirfarandi hugleiðing í þýsku tónlistartímariti: „Við fyrstu sýn gefur að líta ellefu smá tónverk en í þeim býr óendanlegur töframáttur! Músíkölsku orðin eru fá en innihald þeirra er mikið eins og allir innvígðir munu trúa - því er ekki Beethoven með öllu músíkalskur Æskílos í knappleika sínum? Í okkar augum eru þessar bagatellur sannar litlar lífsmyndir“.

Þessi orð eiga einnig vel við bagatellurnar sex op. 126 sem er síðasta verk Beethovens fyrir píanó. Sendi hann verkið ásamt forleiknum Fyrir vígslu hússins op. 124 til útgefandans B.Schott's Söhne í nóvember 1824. Í meðfylgjandi bréfi skrifaði hann: „6 bagatellur fyrir einleikspíanó, þar á meðal nokkrar heldur meira þróaðar og sannarlega það besta af þessum toga sem ég hef skrifað.“