EN

Beethoven: Sinfónía nr. 4

Sinfónía í fjórum þáttum í B dúr, op. 60

Ludwig van Beethoven (1770–1827) var einn þeirra listamanna sem breytti gangi tónlistarsögunnar. Þetta gerði hann meðal annars með níu sinfóníum sem eru löngu komnar í flokk með helstu meistaraverkum vestrænnar menningar. Þegar tónskáld tóku að nota heitið „sinfónía“ á fyrri hluta 18. aldar var það yfirleitt haft um léttvæga óperuforleiki í þremur þáttum (hratt–hægt–hratt), en þegar var komið fram á miðja öld var sinfónía orðið sjálfstæð hljómsveitarverk í þremur eða fjórum köflum. Haydn og Mozart lögðu fram merkan skerf til sinfóníusmíða, og sama má segja um marga aðra smærri meistara sem nú eru allt að því gleymdir. Vínarborg var ekki miðpunktur sinfóníusköpunar í Evrópu þegar Beethoven hóf feril sinn – þar var engin sinfóníuhljómsveit með fasta tónleikaröð eins og í París eða Lundúnum – en formið hentaði tónhugsun hans með eindæmum vel. Þegar Beethoven lést var sinfónían orðin eitt stærsta og mikilvægasta form tónlistarinnar; mælikvarði á frumleika og tæknilega kunnáttu hvers tónskálds. Í höndum Beethovens varð sinfónían form mikilla átaka; í tónlist sinni speglaði hann bæði sitt eigið sálarástand og heiminn allan í mikilfengleika sínum og fjölbreytileika, fegurð og illsku, gleði og ljótleika.

„Hún er grannvaxin grísk gyðja sem stendur milli tveggja norrænna risa,“ sagði Robert Schumann eitt sinn um fjórðu sinfóníu Beethovens. Með þessu átti hann við að sú fjórða væri bæði styttri og ekki eins átakanlega dramatísk og þær sem komu á undan og eftir: Hetjuhljómkviðan (nr. 3) og Örlagasinfónían (nr. 5). Samtímamenn Beethovens gátu líka greint þennan mun og voru hæstánægðir með að tónskáldið hefði tekið skref „afturábak,“ enda höfðu furðulegheitin í Eroicu nærri riðið þeim að fullu. Gagnrýnandi Allgemeine Musikalische Zeitung sagði árið 1812 um þá fjórðu að hún væri „full af þeim frumleika og orku sem einkenndu fyrri verk tónskáldsins, áður en þau tóku að bjagast með ýmiss konar skringilegheitum [Bizarrerien] eins og heyra má í Eroicu og Pastoral-sinfóníunni.“ Líklega er umræddur gagnrýnandi einn fárra sem hefur séð ástæðu til að fetta fingur út í hugljúfa sveitasinfóníuna hvað þetta varðar.

Fjórða sinfónían er að mörgu leyti „klassískt“ verk, hún er þokkafull og stígur létt til jarðar. Hljómsveitin er smærri en í Eroicu: ein flauta, tvö hvers hinna tréblásturshljóðfæranna, tvö horn, trompetar, pákur og strengir. Líkt og í sinfóníum nr. 6 og 8 eru engar „lærðar“ brellur á borð við fúguskrif; þær er eingöngu að finna í oddatölu-sinfóníunum nr. 3, 5, 7 og 9. 

En þá er ekki öll sagan sögð. Fjórða sinfónían er sérlega frumleg á sinn hógværa en fjörmikla hátt, og ef vel er að gáð er hér að finna nýjungar sem skjóta einnig upp kollinum í síðari verkum meistarans. Skissubók Beethovens að þeirri fjórðu hefur ekki varðveist, og því vitum við harla lítið um tilurð hennar. Svo virðist sem Beethoven hafi aðallega unnið að verkinu sumarið 1806, skömmu eftir að hann lauk við fjórða píanókonsertinn og fyrsta Razumovsky-strengjakvartettinn. Hann var þegar byrjaður að leggja fyrstu drög að fimmtu sinfóníunni þegar hér var komið sögu, en lagði þau til hliðar fyrir áðurnefnd verk. Sú fjórða var frumflutt á einkatónleikum í Lobkowitz-höllinni í Vínarborg í mars 1807, ásamt fjórða píanókonsertinum og Coriolan-forleiknum, sem einnig heyrðust í fyrsta sinn við sama tækifæri.

Eins og fyrstu tvær sinfóníur Beethovens hefst sú fjórða á hægum inngangi, og er hann í meira lagi athyglisverður, dökkur og dulúðlegur. Kraftmikið aðalstefið einkennist af stuttum tifandi nótum sem setja svip á kaflann í heild. Andstæðurnar eru sterkar og krassandi – úr pianissimo í fortissimo á örskotsstundu – og jafnvel í ljóðrænum hendingum seinna aðalstefsins er bráðsnjöll kímnigáfa tónskáldsins í forgrunni. Um miðbik þáttarins taka tifandi upphafsnóturnar á sig margskonar svip. Beethoven flakkar milli tóntegunda á ævintýralegan hátt; nýtt ljóðrænt stef myndar skemmtilega andstæðu við stuttu nóturnar sem fylgja því úr hlaði, og smám saman hægir á tónlistinni þar náð hefur verið kyrrstöðu á einum hljómi, sem gefur vísbendingu um að brátt fáum við aftur að heyra upphafsstefið enn á ný. En Beethoven fer aldrei auðveldustu leið að markinu: hljómurinn sem strengir og pákur lenda á er einum tóni hærra en við búumst við. Eins og góðum töframanni sæmir hættir Beethoven sjónhverfingunum á hárréttu augnabliki og fer með okkur aftur á heimaslóð.  

Hægi kaflinn er ljóðrænt Adagio, sem raunar er síðasti verulega „hægi“ þátturinn í sinfóníum Beethovens allt fram að þeirri níundu. Aðalstefið hljómar í fiðlum og er hrífandi þótt það sé ofureinfalt: Es-dúr tónstigi niður á við og svo aftur upp. Beethoven leggur mikla áherslu á söngræna eiginleika stefsins, enda hefur verið bent á að hann hafi líklega aldrei notað ítalska orðið „cantabile“ (syngjandi) jafnoft í einum kafla eins og hér. Tónlistin er á stöðugri hreyfingu allt þar til undir lokin, þegar upphafsstefið hljómar í síðasta sinn leikið af flautu og klarínettu. Nú er allt aukaprjál víðs fjarri, hendingin lifir ein og óstudd og blómstrar sem aldrei fyrr. Þá taka við litlir einleiksbútar fyrir hin og þessi hljóðfæri, og jafnvel pákurnar fá aftur að láta ljós sitt skína. 

Þriðji þátturinn er scherzó, og líkt og Beethoven gerði í sjöundu sinfóníunni og víðar fer hann tvisvar í gegnum hið hefðbundna form – scherzó-tríó-scherzó – svo úr verður kafli í fimm hlutum: scherzó-tríó-scherzó-tríó-scherzó. Hér sprettir Beethoven heldur betur úr spori, og tónlistin á það til að vera algjörlega ófyrirsjáanleg bæði hvað varðar tóntegund og hryn.  Kaflinn er í þrískiptum takti en af og til vinna rytmarnir gegn taktstrikinu, svo að grunlausum hlustanda finnst tónlistin vera í 2/4 um stundarsakir. 

Lokakaflinn er spriklandi rondó sem sýnir enn og aftur í hvílíkri þakkarskuld Beethoven stóð við Haydn, jafnvel þótt hann hafi líklega lært meira af sjálfum verkum fyrrum kennara síns – í þessu tilfelli sinfóníu nr. 102 – heldur en í tónsmíðatímunum sem slíkum. Hér hljóma hvað ofan í öðru iðandi sextándupartar, þokkafullar hendingar og grófir ómstríðir hljómar, og Beethoven sveiflar sér upp og niður tónstiga og milli tóntegunda eins og ekkert sé. Óvæntar brellurnar eru of margar til að hægt sé að telja upp hér, svo að eitt dæmi verður látið nægja. Undir lokin hægir Beethoven á upphafsstefinu í fiðlum og fagottum, svo það hljómar eins og hann sé um það bil að gefast upp á miðri leið – eða sé hreinlega búinn að gleyma framhaldinu – áður en hann steypir sér tvíefldur í lokataktana.