EN

Beethoven: Sinfónía nr. 7

Alkunna er að samtímamenn Ludwigs van Beethoven (1770–1827) furðuðu sig oft á tónsmíðum hans, ekki síst þegar hann spreytti sig á hinum stærri formum. Þegar þriðja

sinfónía hans, Eroica, var frumflutt árið 1805 sagði gagnrýnandi Allgemeine musikalische Zeitung að Beethoven ætti það til að „týnast í stjórnleysi“ og að margt í hinu nýja verki væri „hrikalegt og stórskrýtið“. En stundum hitti Beethoven beint í mark. Sjöunda sinfónían var fullgerð í apríl 1812 og við frumflutninginn í hátíðarsal háskólans í Vínarborg í desember 1813 ætlaði allt um koll að keyra. Meðal viðstraddra var tónskáldið Louis Spohr sem lýsti tilþrifum hins nærri heyrnarlausa tónskálds frammi fyrir hljómsveitinni: „Þegar kom sforzando í tónlistinni sleit hann nærri því af sér handleggina með snöggum hreyfingum og þegar forte hljómaði stökk hann í loft upp.“ Vinir tónskáldsins höfðu um það milligöngu að tónleikarnir voru endurteknir fyrir fullu húsi og þannig komst Beethoven úr þeim fjárhagskröggum sem höfðu gert honum lífið leitt um skeið.

Vinsældir hinnar sjöundu næstu áratugina áttu sér enga hliðstæðu meðal sinfónía meistarans. Það komst upp í vana í tónleikasölum Evrópu að klappa upp annan þáttinn, enda komst sú hefð ekki á fyrr en undir lok 19. aldar að hlustendur sætu þöglir allt þar til lokatónn verks væri dáinn út. Ekki leið á löngu þar til hægt var að kaupa sjöundu sinfóníuna í útsetningum fyrir hina ýmsu hljóðfærahópa – septett, strengjakvartett, píanó, fjórhent píanó og tvö píanó – því að broddborgarar nítjándu aldar vissu fátt betra en að láta nýjustu sinfóníur meistaranna hljóma í stássstofum sínum. Aðeins „stríðssinfónían“ Wellingtons Sieg (Sigur Wellingtons), sem var frumflutt á sömu tónleikum 1813 og lýsir sigri hertogans af Wellington á herdeildum Napóleons í orrustunni við Vittoria á Spáni, naut meiri hylli meðal almennings en sjöunda sinfónían. Það verk er í dag flestum gleymt og þykir sönnun þess að stundarvinsældir segja ekki alltaf rétt til um raunverulegt gildi listaverka.

Sjöunda sinfónía Beethovens er að ýmsu leyti einstök meðal verka hans í þeirri grein. Í henni er til dæmis enginn hægur kafli. Jafnvel þótt annar kafli verksins (Allegretto) hafi um áratuga skeið verið leikinn langt „undir tempói“ eru hljómsveitarstjórar nútímans nú almennt teknir að átta sig á því að hann er aðeins hægur í samanburði við það sem kemur á undan og eftir. Hægur inngangurinn að fyrsta kaflanum er aftur á móti sá lengsti í öllum sinfóníum Beethovens. Sérstaða verksins felst öðru fremur í hinni einstöku lífsgleði sem stafar frá hverri einustu nótu. Berlioz kvaðst heyra bændadans í fyrsta þættinum, tónlistarfræðingurinn Paul Bekker líkti verkinu við „orgíu Bakkusar“ og Richard Wagner lýsti því yfir að sinfónían væri „upphafning dansins“.

Inngangurinn að fyrsta þætti spannar nokkrar ólíkar tóntegundir, sumar harla fjarskyldar þeirri tóntegund sem Beethoven valdi verkinu í heild. Fagurt óbóstef hljómar tvisvar en síðan hægist smám saman um. Loks er ekki eftir nema einn tónn, síendurtekinn, sem flæðir yfir í aðalkaflann og myndar kjarnann að meginstefinu. Annar kaflinn er eins konar tilbrigði þar sem skiptast á tvö stef, annað ábúðarfullt sem vex í styrk í hvert sinn sem það heyrist, hitt öllu blíðara, hnígandi og rísandi tónstigar þar sem klarínett og fagott eru í forgrunni.

Þriðji þáttur er scherzo, eitt hið fjörugasta sem Beethoven samdi. Tónlistin þeytist áfram í fjögurra takta hendingum en stundum bregður tónskáldið á leik og skeytir inn töktum sem koma hinni reglulegu hendingaskipan í uppnám. Eins og í nokkrum öðrum verka sinna – til dæmis fjórðu sinfóníunni – fer Beethoven tvisvar í gegnum hið hefðbundna form (scherzo – tríó – scherzo), svo að miðkaflinn, þar sem blásarar eru í forgrunni, er endurtekinn í heilu lagi. Lokaþátturinn einkennist af sömu óbeisluðu lífsgleðinni og hinir fyrri, og enn er það lítið og sakleysislegt hrynmótíf sem tengir saman hin ólíku – en sannarlega fjörugu – stef.

Sjöunda sinfónía Beethovens markaði að vissu leyti tímamót á ferli Beethovens, ásamt hinni áttundu sem fylgdi strax á eftir. Hetjuskeiðinu svonefnda, sem talið er hefjast um 1802, lauk

1812, árið sem hann fullgerði þessi tvö stóru verk. Næstu ár einkenndust af vonbrigðum og illdeilum í einkalífi Beethovens og afköst hans á árunum 1813–1818 voru ekki svipur hjá sjón. Þó voru þessi ár ekki með öllu glötuð. Í þögninni gafst honum færi á að endurmeta stíl sinn, skapa nýtt tónmál sem átti sér ekki hliðstæðu í list samtímans. Þá fann hann frelsi til að gera enn nýstárlegri tilraunir en áður, óheftur af takmörkunum ytri veruleika.