EN

Beethoven: Sinfónía nr. 9

Níunda sinfónían eftir Ludwig van Beethoven (1770–1827) er eitt þekktasta tónverk allra tíma. Hún er stórfenglegt afrek hvernig sem á hana er litið, vonartákn um sameinað mannkyn og hugsjónir frelsis, jafnréttis og bræðralags. Í sögulegum skilningi er hún þó fyrst og fremst verk andófs. Óðurinn An die Freude (Til gleðinnar) eftir þýska skáldið Friedrich Schiller var ekki nýr þegar Beethoven tónsetti hann seint á ævinni. Kvæðið birtist í fyrsta sinn á prenti árið 1786, í aðdraganda frönsku byltingarinnar, og var á sinn hátt dæmigert fyrir tíðarandann. Í því tjáir skáldið hugmyndir um frelsi, jafnrétti og bræðralag meðal manna. Í upprunalegri gerð þess orti Schiller meðal annars um „lausn undan hlekkjum harðstjóranna“ og hvatti til jafnræðis meðal hinna hæst- og lægst-settu:

 

            Bettler werden Fürstenbrüder,                       Betlarar verða bræður fursta

            wo dein sanfter Flügel weilt.                         blíðum vængjum þínum nær.

 

Síðar breytti Schiller kvæðinu dálítið og lét þá fyrri línuna ná til mannkynsins alls: „Alle Menschen werden Brüder.“ Slíkar hugmyndir féllu vel að þankagangi hins unga Beethovens og óður Schillers var honum hugleikinn frá fyrstu tíð. Á æskuárunum í Bonn hafði hann í hyggju að semja lag við kvæðið og aftur leitaði það á hann um aldamótin 1800 þegar hann páraði hendingar við nokkrar línur þess í eina af skissubókum sínum.

Þremur áratugum síðar var allt breytt og óðurinn sem Beethoven las með áfergju á unglingsárum var flestum gleymdur. Verk Schillers komust á bannlista í Vínarborg eftir frönsku byltinguna og sáust ekki aftur á prenti fyrr en nokkuð var liðið á nýja öld. Í lögregluríki Metternichs virtist hugsjónin um ríki upplýsingarinnar hafa beðið varanlegt skipbrot. Í Níundu sinfóníu sinni (1822–24) klæðir Beethoven kulnaðan æskudraum upp sem bjarta framtíðarsýn. Hann leit líka til fortíðar í sjálfri tónlistinni. Eitt og annað í lokaþættinum er nefnilega endurómur af eldra verki Beethovens, Fantasíu fyrir píanó, kór og hljómsveit (1808). Hún er einnig tilbrigði um glaðvært stef, lofsöngur til lífsins og tónlistarinnar, og textinn er undir sama bragarhætti og óður Schillers. Níunda sinfónían er að mörgu leyti tímamótaverk en ekki voru allar hugmyndir tónskáldsins splunkunýjar.

Upphaf sinfóníunnar er dularfullt og órætt. Maður greinir vart hvenær verkið hefst í raun og veru; titrandi fimmundir í strengjum hljóma eins og ómótað kaos sem smám saman tekur á sig form. Aldrei fyrr hafði sinfónía byrjað svo veikt eða verið svo lengi að vakna til lífsins. Síðar varð alvanalegt að rómantísk tónskáld byrjuðu verk sín með þessum hætti og sóttu þau þá fyrirmynd sína hingað, til dæmis Gustav Mahler í fyrstu sinfóníu sinni og Anton Bruckner í fjórðu og áttundu sinfóníum sínum. Skyndilega brýst meginstefið fram, fullmótað og alvöruþrungið. Síðar í kaflanum hljóma upphafstónarnir á nýjan leik en nú leiknir fortissimo af allri hljómsveitinni, með dynjandi pákum og í dúr en ekki moll. Breski tónlistarfræðingurinn Donald Francis Tovey segir að þetta augnablik opinberi „hinn gífurlega mátt upphafstónanna. Nú erum við stödd í þeim miðjum, og í stað fjarlægrar stjörnuþoku sjáum við himnana loga.“ 

Í tónsmíðum þar sem hægi kaflinn var óvenjulangur, eins og hér er raunin, setti Beethoven hann stundum í þriðja sæti og lét hraðan scherzo-þátt koma beint í kjölfar þess fyrsta. Þetta scherzo þýtur áfram á ógnarhraða en hefur um leið yfir sér strangan blæ. Þriðji þáttur sinfóníunnar er djúphugull og ljóðrænn. Formgerðin er svokallað tvöfalt tilbrigðaform, þar sem tvö meginstef eru sett fram og síðan hljóma tilbrigði við hvort þeirra til skiptis. Haydn hafði notað það alloft en annars var Beethoven eitt fárra tónskálda sem gáfu því verulegan gaum. 

Lokakaflinn, Óðurinn til gleðinnar, er óvenjulegasti þáttur verksins. Hann hefst með ómstríðum hljómi sem rýfur friðsældina sem áður ríkti, hljómi sem Richard Wagner kallaði Schreckensfanfare, hryllingsþytinn. Með honum gefur Beethoven til kynna að tónlistin sé komin í öngstræti, að upp sé komið vandamál sem krefjist lausnar með einum eða öðrum hætti. Um skeið er eins og Beethoven þreifi sig áfram, án árangurs þó. Hljómsveitin leikur stef úr fyrri þáttum verksins en í hvert sinn setja selló og kontrabassar strik í reikninginn. Þau afþakka hverja minninguna eftir aðra með hendingum sem fremur minna á söngles en hljóðfæramúsík, eins konar ópera án texta. Lausn þessarar kreppu kemur þegar tréblásarar leika upphaf að nýju stefi sem síðan hljómar í strengjum. Þetta er „gleðistefið“ svokallaða sem Beethoven notar nú sem efnivið í tilbrigði – alls verða þau níu áður en yfir lýkur.

Eftir þrjú tilbrigði fer allt í háaloft enn einu sinni. Hryllingsþyturinn er nú ómstríðari en áður, samsettur úr tveimur hljómum sem rekast á og útkoman er að sama skapi sársaukafull. Það er eins og boðskapur hins nýja stefs sé enn ekki fyllilega ljós. Textann vantar, tónlistin ein megnar ekki að tjá allt sem Beethoven býr í brjósti á þessari stundu. Þá stígur fram einsöngsbassi sem leysir verkið úr sjálfheldu með því að syngja frumortan texta tónskáldsins, inngangsorð að kvæði Schillers: „Æ, vinir, ekki þessa tóna!“ Svarið við þessari áskorun er einmitt Óðurinn til gleðinnar, sem hljómar í allri sinni dýrð í flutningi kórsins.

Eftir það gengur allt eins og í sögu. Við taka sex tilbrigði um gleðistefið, þar af eitt í tyrkneskum stíl þar sem tenór syngur með bassatrommu og þríhorni. Slík tónlist hafði verið eftirlæti Vínarbúa um það leyti sem Schiller orti óð sinn en var úr takti við tíðarandann 1824, rétt eins og boðskapur textans. Karlaraddir kynna nýtt og hægara stef, og þar sem sungið er um almáttugan föður sem býr „stjörnum ofar“ (über Sternen muss er wohnen) bætir Beethoven við básúnum sem á 18. öld voru einmitt helst notaðar í kirkjutónlist. Beethoven gerir miklar kröfur til söngvara sinna, lætur þá syngja á hæsta tónsviði eins og raddirnar eigi beinlínis að teygja sig upp í himinhvolfið. Hápunkti þáttarins er náð þegar Beethoven lætur tvö meginstef kaflans, „Seid umschlungen“ og Óðinn til gleðinnar, hljóma samtímis í tvöfaldri fúgu. Slík stefjasamsetning er einmitt til marks um áhuga hans á fúguskrifum síðustu árin sem hann lifði.

Aldrei áður hafði þurft einsöngvara og kór til að flytja verk sem bar yfirskriftina „sinfónía“ og sýndist sitt hverjum um uppátækið. Enskur gagnrýnandi sagði eftir fyrsta flutning í Lundúnum árið 1825 að sinfóníuna þyrfti að skera niður um helming og lokakaflann þyrfti að semja upp á nýtt; hann taldi fullvíst að ef Beethoven fjarlægði kórkaflann myndi sinfónían vekja „óblandna ánægju“. Tónskáldið Louis Spohr botnaði ekkert í verkinu, að hans mati var lokaþátturinn „svo skelfilegur og smekklaus að ég fæ ekki enn skilið hvernig snillingur eins og Beethoven gat fest hann á blað“. Önnur og frægari tónskáld 19. aldar tóku „hina Níundu“ aftur á móti sér til fyrirmyndar: Mendelssohn, Liszt, Mahler og fleiri sömdu kórsinfóníur undir beinum áhrifum Níundu sinfóníunnar. Jafnvel þeir sem ekki höfðu lengur trú á hinu sinfóníska formi fundu réttlætingu á listsköpun sinni í formgerð hennar og boðskap. Richard Wagner taldi hana marka endalok sinfóníunnar, því að með innkomu raddanna í lokaþættinum hefði söngurinn borið sigurorð af hreinni hljóðfæratónlist. Með slíkri túlkun gerði Wagner verkið að forsendu þeirrar listar sem hann skapaði sjálfur í óperuheiminum.

Níunda sinfónían er eitt meginverka tónlistarsögunnar og boðskapur hennar hefur verið nýttur í þágu góðs og ills. Hún var leikin við setningu Ólympíuleikanna í Þýskalandi nasismans 1936 og á afmælistónleikum Hitlers fáeinum árum síðar. Frelsissinnaðir námsmenn staðfestu málstað sinn með því að láta Óðinn til gleðinnar óma um Torg hins himneska friðar í Peking fáeinum dögum áður en herinn framdi þar ógurleg fjöldamorð vorið 1989; síðar sama ár var verkið flutt á tónleikum sem sjónvarpað var um allan heim frá Berlín til að fagna því að múrinn milli austurs og vesturs var fallinn. Óðurinn til gleðinnar hefur enn pólitíska skírskotun, því hann hefur verið einkennisstef Evrópusambandsins frá 1986 og fyrr á þessu ári komst í heimsfréttir að þingmenn breska Brexit-flokksins sneru baki í flytjendur þegar stefið var leikið við setningu Evrópuþingsins. Verkið hefur einnig mótað lykilákvarðanir í tæknigeiranum. Sagan segir að þegar japanski raftækjaframleiðandinn Sony þróaði hljómdiskinn á árunum um 1980 hafi þvermál hans og geymslugeta beinlínis miðast við að Níunda sinfónían gæti rúmast á einum slíkum.

Ástæða þess að svo margir hafa eignað sér Níundu sinfóníuna er augljós. Hún er listaverk sem er á sinn hátt hafið yfir stund og stað. Þó er verkið sem slíkt mótað af þeim veruleika sem blasti við Beethoven á síðustu árum hans. Í því býr uppreisn gegn pólitísku ofríki samtímans, afturhvarf til draums um ríki frelsis og jafnréttis sem aldrei varð.