EN

Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 3

Þriðja sinfónía Beethovens (1770–1827) var samin á árunum 1803–1804 og frumflutt í Vínarborg árið 1805. Hún markaði tímamót á mörgum sviðum. Hún sló nýjan tón í því hvernig skrifað var fyrir sinfóníuhljómsveit og hún er bæði lengri og stórbrotnari en áður tíðkaðist að hafa sinfóníur. Hún er talin upphafsverkið á miðskeiði tónsköpunar Beethovens en á þeim tíma var hann á hátindi sköpunarferils síns, var sérlega frjór og samdi mörg af sínum þekktustu verkum sem mörg hver einkennast af sama hetjuanda og sinfónían. Þetta var ótvírætt skeið hinna stóru verka. Eini fiðlukonsertinn sem Beethoven lauk við var samin aðeins ári síðar, og allar sinfóníurnar nema fyrstu tvær og sú níunda eru frá þessu skeiði. Fidelio, eina óperan sem Beethoven samdi og mörg af viðameiri kammerverkum hans voru einnig samin á þessu tímabili. Sinfónían hefur þar fyrir utan verið talin marka þau merku tímamót þegar rómantíkin tók við af klassíkinni en þar með urðu tilfinningarnar þandari og allar andstæður mun meiri, ekki síst í styrkleikabreytingum, en áður hafði heyrst í virðulegum tónleikasölum Evrópu.

Á meðan 3. sinfónían var í vinnslu kallaði Beethoven hana Bonaparte-sinfóníuna enda hreifst hann mjög af Napóleon Bónaparte og því sem hann taldi vera baráttu hans fyrir betri kjörum alþýðufólks. Þegar Napóleon krýndi sig sem keisara, snerist Beethoven öndverður gegn honum og breytti nafni hennar. Sinfónían varð því aldrei tengd Napóleon eftir að hún varð fullgerð en hetjuandinn er augljós og sinfónían er nú merkt hetjum af öllu tagi.

Tóntegundin Es-dúr hefur gjarnan verið tengd hetjuanda, hún er sögð hafa á sér yfirbragð glæsileika og fumkvæðis. Það er ekki síst vegna notkunar Beethovens á tóntegundinni, því fyrir utan hetjusinfóníuna eru 5. píanókonsert hans, nefndur Keisarakonsertinn, og píanósónata nr. 4, sem kölluð hefur verið Grand-sónata eða Stóra sónatan og fleiri mikilvæg verk, í Es-dúr. Tóntegundin hafði reyndar þetta orð á sér áður en Beethoven tók að semja sínar stórbrotnu tónsmíðar, því ítalski fiðluleikarinn og tónlistarfræðingurinn Francesco Galeazzi sem var litlu eldri en Beethoven, sagði um tóntegundina að hún væri hetjuleg og sérlega tignarleg, hátíðleg og alvarleg og mun fremri til dæmis C-dúr að þessu leyti. Reyndar var C-dúr önnur tóntegund sem Beethoven hafði miklar mætur á.

Hetjusinfónían hefst mjög afdráttarlaust á tveimur snörpum Es-dúr hljómum sem er vitaskuld grunntóntegund sinfóníunnar, þar sem es-ið er mjög áberandi í allri hljómsveitinni. Reyndar minnir þetta upphaf frekar á lokahljóma tónverks og jafnvel mætti túlka þá sem endalok tengsla verksins við Napóleon – og kannski vildi Beethoven með þessu merkja verkið enn frekar hetjuandanum. Upphafshljómarnir leiða óneitanlega hugann að upphafi 5. sinfóníunnar og hvernig Beethoven nær að fanga andrúmsloft heillar sinfóníu strax í byrjun verksins. Þessi er föst fyrir en full bjartsýni og gefur ákveðin fyrirheit, á meðan 5. sinfónían byrjar á upptakti sem skapar eftirvæntingu en gefur jafnframt til kynna þunga og jafnvel ótta. Sinfónían er öll dregin stórum dráttum sem eru einkennandi fyrir tónsköpun Beethovens á þessu skeiði og æ síðan, hljómaframvindan er hæg og hann byggir upp spennu með löngum fléttum.

Fyrsti kaflinn er í þrískiptum takti og hefðbundnu sónötuformi, þar sem þrjú stef eru efniviðurinn. Annar kaflinn, sem er jarðarfararmars, byrjar í c-moll, sem er sammarka tóntegund Es-dúrs. Hann er mjög dramatískur og er oft leikinn við útfarir. Í upphafi er kynnt stef í strengjum sem síðan færist til tréblásara með óbóið í broddi fylkingar. Um miðbik kaflans má svo heyra bregða fyrir fúgu sem spunnin er áfram í allri hljómsveitinni. Þriðji kaflinn er líflegt scherzo og tríó. Í tríó-hlutanum gegna þrjú horn mikilvægu hlutverki en það mun hafa verið í fyrsta skipti sem slíkt heyrðist í sinfóníu. Fjórði kaflinn er svo byggður upp í kringum stef með tíu tilbrigðum. Beethoven mun áður hafa notað áþekkt stef og færa mætti rök fyrir því að öll sinfónían byggi á þessu sama stefi. Sinfónían endar svo á eftirspili, stuttum og snaggaralegum presto-kafla, þar sem heyra má miklar og snöggar styrkleikabreytingar og nokkuð margendurtekinn lokahljóm, í sönnum Beethovenanda.

Þriðja sinfónía Beethovens, Hetjusinfónían, hefur margoft verið flutt hér á landi allt frá stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands enda er hún eitt af stórvirkjum evrópskra tónbókmennta. Hún var fyrst flutt á stofnunarári hljómsveitarinnar, á tónleikum í Þjóðleikhúsinu 17. desember árið 1950 undir stjórn þýska hljómsveitarstjórans Victors Hildebrandts sem var ráðinn til að stjórna tvennum tónleikum undir lok þess árs. Hetjusinfónínan var síðast flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg í Hörpu, 23. maí 2019, undir stjórn Osmo Vänskä.