EN

Magnús Blöndal Jóhannsson: Adagio fyrir strengi

Magnús Blöndal Jóhannsson (1925–2005) hóf ungur nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og nam síðan við Juilliard tónlistarháskólann í New York um sex ára skeið, frá 1947 til 1953. Hann varð einna fyrstur íslenskra tónskálda til að tileinka sér raðtækni sem tónsmíðaaðferð. Verkið Fjórar abstraksjónir var fyrsta verk hans með tólftónaaðferð og samið meðan hann var enn í New York en eftir heimkomuna til Íslands 1954 hélt hann áfram á sömu braut. Magnús var einn af stofnendum Musica Nova árið 1959 og hóf um líkt leyti að gera tilraunir með raftónlist. Frumraun hans á því sviði var Elektrónísk stúdía með blásarakvintetti og píanói sem frumflutt var á tónleikum Musica Nova í apríl 1960 og strax í kjölfarið fylgdu verkin Constellations (1961) og Punktar (1962). Magnús var sannkallaður brautryðjandi á þessu sviði enda þótt aðstæður til raftónsmíða væru þá bágbornar hérlendis. Hann starfaði hjá Ríkisútvarpinu, fékk leyfi til þess að nýta sér tæki þess utan hefðbundins vinnutíma og vann þannig að verkum sínum. Því fór reyndar fjarri að tónsmíðar Magnúsar einskorðuðust við framúrstefnu; hann samdi einnig sönglög, kvikmynda- og leikhústónlist og er tónlist hans við kvikmynd Ósvaldar Knudsen Sveitin milli sanda þar best þekkt.

Upp úr 1970 verður nærri áratugshlé á tónsmíðum Magnúsar en þegar hann rýfur þögnina er það með verkum í allt öðrum stíl en þeim sem markaði helstu tónsmíðar hans á sjöunda áratugnum. Þessi nýrri verk hafa verið kennd við nýrómantík og þekktast þeirra er Adagio, sem er frá árinu 1980. Magnús samdi það upphaflega á hljóðgervil og lék inn á tölvu en umskrifaði síðar fyrir strengjasveit, selestu og slagverk, auk þess sem það er til í útsetningu fyrir orgel.