EN

Maria Antonia Walpurgis: Talestri, forleikur

Konur áttu erfitt uppdráttar sem skapandi listamenn fyrr á öldum, ekki síður í tónlist en öðrum listgreinum. Þó tókst mörgum þeirra að skapa sér nafn og njóta hæfileika sinna með ýmsum hætti, jafnvel í stórum formum eins og óperum og sinfóníum. Í kvöld hljóma í fyrsta sinn á Íslandi þættir úr óperum eftir tvær þýskar aðalskonur á 18. öld.

Maria Antonia Walpurgis (1724–1780) var borin prinsessa, dóttir Maríu Amalíu af Austurríki og Karls kjörfursta af Bæjaralandi. Hún giftist síðar kjörfursta Saxlands og fór eftir andlát hans með æðstu völd í ríkinu þar til sonur þeirra náði lögaldri. Hún var því valdamikil kona en gaf sér einnig tíma til að sinna listsköpun, var tónskáld, sópransöngkona, listmálari og ljóðskáld og sótti tíma hjá kunnum tónskáldum eins og Nicola Porpora og Johann Adolph Hasse. Maria Antonia samdi tvær óperur og er Þalestris, drottning Amasónanna (1760) sú seinni í röðinni. Hún hafði fulla stjórn við samningu verksins, orti einnig söngtextann og fór sjálf með aðalhlutverk við frumflutninginn.

Amasónudrottningin Þalestris var viðfangsefni nokkurra óperutónskálda á 18. öld, en í grískri goðafræði voru Amasónur þjóðflokkur kvenna sem þóttu herskáar og börðust með sverðum, bogum og spjótum. Í sögu óperunnar tekst Þalestris á við krefjandi kringumstæður og kemst að lokum til fulls þroska – og þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér að kjörfurstynja sem komst til valda eftir lát manns síns hafi átt sínar fyrirmyndir í kröftugum kvenhetjum goðafræðinnar. Hér hljómar forleikur sem er í þremur þáttum eins og oft tíðkaðist í óperum um miðja 18. öld. Kraftmikill inngangskafli setur stemninguna og lýsir kannski eiginleikum hinnar sterku kvenhetju; því næst hljómar blíður strengjakafli og loks leikandi lokaþáttur sem skapar eftirvæntingu fyrir því að tjaldið rísi.