EN

Maurice Ravel: Bolero

 

Maurice Ravel (1875–1937) á að hafa sagt: „Ég hef samið eitt meistaraverk, og það er Bolero. Því miður er engin tónlist í því“. Í raun hitti tónskáldið hér naglann á höfuðið, því að hið músíkalska innihald verksins er ekki upp á marga fiska. Það samanstendur í rauninni aðeins af síendurteknum rytma sneriltrommunnar og einföldu stefi sem er endurtekið aftur og aftur í sautján mínútur. Snilld verksins felst einmitt í því að Ravel tekst að byggja upp spennu gegnum stigvaxandi dýnamík og síbreytilega hljóðfæranotkun, án þess að hlustandinn verði nokkurn tímann leiður á því sem fyrir eyru ber.  

Ravel samdi Bolero samkvæmt beiðni ballettdansmeyjunnar Idu Rubinstein, sem langaði að semja dans við spænska tónlist. Upphaflega vildi hún að Ravel útsetti fyrir sig píanólög eftir Albeniz, en þegar útgefandinn synjaði þeim leyfis tók Ravel sig til og samdi sitt eigið verk í staðinn. Bolero er spænskur dans sem naut gríðarlegra vinsælda á 19. öld og er löngu orðinn hluti af þjóðardanshefðum Andalúsíu og Kastilíu. Verkið hefst á „ekta“ bolero-rytma, og smám saman bætast hljóðfærin við, eitt af einu með laglínuna, og alltaf fjölgar í hópnum þar til öll hljómsveitin leikur af fullum krafti. Sagan segir að eftir frumflutninginn hafi kona komið að máli við Ravel og sagt: „Þetta nýja verk er hreinasta brjálæði!“ Tónskáldið svaraði: „Þá hafið þér skilið það fullkomlega!“