EN

Maurice Ravel: La valse

Þegar heimsstyrjöld braust út haustið 1914 var Ravel í þann mund að ljúka við nýja tónsmíð, píanótríóið fræga, og var með hugann við önnur verkefni: píanókonsert yfir basknesk stef, tvö píanóverk og tvær óperur. Þegar til kom ýtti hann öllu þessu til hliðar og sótti um að gerast flugmaður í franska hernum. Umsókn hans um herþjónustu var hafnað þar sem hann var of smávaxinn – hann vó ekki nema 48 kíló – en í staðinn gerðist hann sjúkraflutningamaður. Stríðsárin voru honum mikil raun og hann átti örðugt með að snúa sér aftur að tónsmíðum þegar friður komst á. Hann hafði þá ekkert samið í fjögur ár og þjáðist aukinheldur af svefnleysi sem gerði honum lífið leitt allt til dauðadags.

La valse var eitt það fyrsta sem Ravel tók sér fyrir hendur eftir að heim var komið. Verkið er sérkennileg blanda af ljúfum Vínarvölsum, sem svífa hjá áreynslulaust þótt þeir heyrist sjaldnast nema í brotakenndu formi, og tónlist sem hefur á sér allt annan blæ – er ágeng, frek, gróf. Þegar líður á verkið verða línurnar óskýrari, ágenga tónlistin verður danskenndari þrátt fyrir allan ljótleikann, en valstaktarnir óhugnanlegri í hvert sinn sem þeir skjóta upp kollinum.

Í raun má líta á La valse sem áhrifamikið uppgjör Ravels við andstæðingana úr stríðinu. Hér skrumskælir franskt tónskáld músíkina sem öðru fremur var tákn höfuðborgar hins volduga austurrísk-ungverska keisaradæmis. Í túlkun Ravels er valsinn sprottinn af sama meiði og mikilmennskubrjálæðið sem leiddi Evrópu á barm glötunar. Sporin verða sífellt trylltari, eins og heill hallarsalur af austurrískum prinsum og greifynjum missi skyndilega öll tök á raunveruleikanum. Að lokum hnígur dansandi aðalsfólkið örmagna niður líkt og unga stúlkan í Vorblóti Stravinskíjs – fórn á altari græðginnar og brjálseminnar, rétt eins og milljónirnar sem stefnt var út á vígvöllinn í þeirra þágu.