EN

Maurice Ravel: Pavana fyrir látna prinsessu

Pavane pour une infante défunte er franskur titill þessa þekkta tónverks eftir Maurice Ravel (1875-1937). Titillinn hefur orðið mörgum umhugsunarefni: hver var látna prinsessan? Hvers er verið að minnast? Tónskáldið sjálft var tregt til svars, í sumum tilvikum sagðist hann einfaldlega hafa hrifist af hljómi orðanna. Við önnur tækifæri samsinnti hann því að hann væri að vekja upp hughrif fortíðar, en pavana er tígulegur hægferðugur dans frá Padúa á Ítalíu sem vinsæll var við evrópskar hirðir á 16. og 17. öld.  Infanta er spænskt orð yfir unga prinsessu, sem leiðir hugann að málverki spænska hirðmálarans Velázquez, Las meninas, frá 1656, þar sem í forgrunni er bjartleit lítil prinsessa í ljósum bosmamiklum kjól, umkringd hirðmeyjum sínum og ráðgjöfum. Við þessa tónlist gæti prinsessan litla hafa dansað, eða sökkt sér ofaní dagdrauma. Ólíkt því sem finna má í mörgum verka Ravel er hér fremur hefðbundinn hljómagangur, lágstemmd tjáning, einföld og stillileg laglína í þokkafullum búningi. 

Ravel leitaði fanga í spænskri tónlist, líkt og fleiri samtímamenn hans og landar í flokki tónskálda, hann samdi t.a.m. Spænska rapsódíu og Bolero, undir sterkum spænskum áhrifum. Tengsl Ravels við Spán voru meiri en margra, basknesk móðir hans var alin upp í Madrid og spænsk menning í hávegum höfð á bernskuheimili hans sjálfs í Frakklandi.

Upphaflega var pavana Ravels píanóverk, samið árið 1899, meðan hann stundaði enn tónsmíðanám hjá Gabriel Fauré. Verkið tileinkaði tónskáldið velgjörðarkonu sinni, prinsessunni af Polignac, sem áður var minnst á í þessari tónleikaskrá, en hann mun hafa flutt verkið á stofutónleikum heima hjá henni oftar en einu sinni.  Ravel bjó verkið í hljómsveitarbúning árið 1910 og hafa báðar gerðir þessa litla meistaraverks notið mikillar hylli.