EN

Maurice Ravel: Píanókonsert fyrir vinstri hönd

Flest hljóðfæri eru þess eðlis að tvær hendur þarf til að leika á þau, en á píanó má ná fram undraverðum tónum jafnvel þótt aðeins sé leikið með annarri hendi. Nokkur tónskáld 19. aldar nýttu sér þetta þegar þau vildu setja flytjendum tilteknar skorður, til dæmis Brahms í umritun sinni fyrir vinstri hönd á fiðlusjakonnu Bachs (1877) eða Skrjabín í næturljóði fyrir vinstri hönd frá 1894. Vinstri handar píanó­ verkum fjölgaði þó til muna á fyrri hluta 20. aldar þökk sé einum manni. Paul Wittenstein var 26 ára píanisti (og bróðir Ludwigs heimspekings) sem barðist í austurríska hernum í heimsstyrjöldinni fyrri. Haustið 1914 fékk hann skot í hægri handlegginn í kúlnaregni rússneskrar herdeildar og læknar sáu ekki önnur ráð til að bjarga lífi hans en aflimun.

Þrátt fyrir þetta mikla áfall tókst Wittenstein með þrautseigju að koma sér á framfæri eftir að stríðinu lauk og hann pantaði ný verk hjá mörgum helstu tónskáldum 20. aldar. Richard Strauss, Sergei Prokofíev og Benjamin Britten sömdu allir fyrir hann verk, en sú tónsmíð sem hljómar hvað tíðast í dag af pöntunum Wittgensteins er konsert Maurice Ravels (1875–1937) fyrir vinstri hönd. Þeir Wittgenstein hittust í fyrsta sinn vorið 1929, og í september 1930 var konsertinn fullgerður. Ravel var um þetta leyti á hátindi ferils síns og heillaðist af þeim takmörkunum sem fylgdu slíkri áskorun. Þetta var ein síðasta stóra tónsmíðin sem Ravel lauk við. Hann lenti í bílslysi árið 1933 og fór skömmu síðar að sýna merki málstols sem einnig hafði áhrif á tónsmíðar hans; hann heyrði tónlist í huganum en honum var um megn að festa hana á blað.

Konsertinn er einþáttungur sem skiptist í tvo hluta. Sá fyrri er hægur, og víða má greina áhrif djassins sem heillaði Ravel mjög um þetta leyti; dæmi um áhuga hans má til dæmis heyra í fiðlusónötu hans og píanókonsertinum í G­dúr (fyrir tvær hendur). Seinni hluti konsertsins er eins konar mars; hér leikur einleikarinn dansandi stef sem undir lokin hljómar um leið og djass­stefið úr fyrri hlutanum. Þótt konsertinn sé í styttra lagi gefur hann píanistanum ótal tækifæri til að sýna listir sínar. Þrátt fyrir tæknilegar takmarkanir spannar píanóparturinn allt tónsviðið og Ravel tekst það sem að var stefnt, að láta píanóröddina hljóma eins og þar séu tvær hendur að leik.