EN

Maurice Ravel: Píanókonsert í G-dúr, 2. kafli, Adagio assai

Maurice Ravel (1875-1937) er jafnan flokkaður með frönsku impressjónistunum í tónlistarsögunni þótt áhrifin á litríka og fágaða tónlist hans komi víða að. Þar má nefna til tónlist endurreisnarinnar og barokktímans, þjóðlagatónlist Baskahéraða Spánar og bandaríska jazztónlist. Hið síðastnefnda má ekki síst rekja til tónleikaferðar Ravels til Bandaríkjanna árið 1928. Í New York kynntist hann meðal annars tónskáldinu George Gershwin, sem var meira að segja svo elskulegur að leiða þennan fíngerða og kurteisa Frakka um villtustu djassbúllurnar í Harlem. Andi jazztónlistarinnar svífur víða yfir vötnum í píanókonsertinum í G-dúr, sem varð eitt síðasta stóra verk tónskáldsins, en hann lauk við það 1931. Sjálfur sagðist Ravel helst hafa sóst eftir því að semja eitthvað fagurt og einfalt, í anda Mozarts og Saint-Saens. „Konsertar eiga að mínum dómi að vera léttúðugir og glitrandi, en ekki keppast við að ná dýpt eða dramatískum áhrifum,“ er haft eftir honum, en hafa ber í huga að sjálfur umgekkst hann tónsmíðarnar sjaldnast af neinni léttúð, heldur lá yfir sérhverjum takti uns bæði formgerð og áferð tónlistarinnar stappaði nærri fullkomnun. Hægi kaflinn í G-dúr konsertinum er svo sannarlega glitrandi fagur, og að margra dómi það innblásnasta sem Ravel sendi frá sér um dagana. Píanóleikarinn spinnur angurværa og leitandi laglínu sem hin ýmsu hljóðfæri hljómsveitarinnar prjóna við svo úr verður ljúfsár hugleiðing eða dagdraumur í blíðlegum valstakti. Það var þó ekki þrautalaust að ná fram þessari áreynslulausu fegurð - sem endranær þjáðist Ravel að eigin sögn yfir hverjum einasta takti og hélt um stund að verkið myndi ganga af sér dauðum.