EN

Mélanie Bonis: Les Gitanos, spænskur vals

Lífshlaup Mélanie Bonis (1858–1937) var um margt reyfarakennt. Tónlistarhæfileikar hennar komu snemma í ljós og sextán ára gömul kynntist hún hinu fræga tónskáldi César Franck og fyrir hans atbeina lá leiðin inn í Konservatóríið í París þar sem hún nam meðleik, hljómfræði og tónsmíðar en meðal skólabræðra hennar þar var Claude Debussy. Í skólanum kynntist hún Amédée Landély Hettich, ungum söngvara, rithöfundi og tónlistargagnrýnanda. Þau felldu hugi saman en foreldrar hennar neituðu henni um að giftast inn í „hættulegan listaheim“ og neyddu hana til að hætta námi í skólanum. Nokkrum árum síðar var hún látin kvænast efnuðum ekkjumanni sem var 25 árum eldri en hún og var faðir fimm drengja sem fylgdu honum inn í sambúðina. Mélanie, sem var mjög trúuð kona, tók hið nýja verkefni alvarlega, fæddi manni sínum þrjú börn og rak stóra fjölskyldu og tólf manna þjónustulið af mikilli samviskusemi. En stóra ástin hennar var Hettich. Hann gat henni dóttur, Madeleine, sem hún fæddi á laun á heilsuhæli í Sviss. Stúlkan var alin upp af fósturmóður en Mélanie fylgdist með uppeldi hennar úr fjarlægð. Fóstran lést þegar Madeleine var fimmtán ára gömul og tók Mélanie hana þá að sér sem munaðarlaust fórnarlamb stríðsins og kynnti hana sem guðdóttur sína. Það var ekki fyrr en Madeleine og Édouard hálfbróðir hennar urðu ástfangin, að Mélanie neyddist til að ljóstra upp sannleikanum. 

Í þessari miklu hringiðu einkalífsins tókst Mélanie Bonis þó að hasla sér völl sem tónskáld, vinna til verðlauna, sinna ritarastörfum í samtökum tónskálda og semja í kringum 100 tónverk af ýmsum toga. Þar á meðal er Valse espagnole eða Spænskur vals sem var upphaflega saminn fyrir píanó en vegna mikilla vinsælda fljótlega útsettur fyrir fjórhent píanó og stuttu síðar færður í hljómsveitarbúninginn sem hljómar á tónleikunum.