EN

Nikolaj Rimskíj-Korsakov: Sheherazade

Tvö tónskáld stóðu öðrum framar þegar kom að því að kanna ný litbrigði hinnar ört stækkandi sinfóníuhljómsveitar á 19. öld. Hector Berlioz og Nikolaj Rimskíj-Korsakov (1844–1908) voru fremstir hljómsveitarútsetjara á sinni tíð og höfðu áhrif á kynslóðir tónskálda með kennslu sinni, bókaskrifum og ekki síst tónlistinni sjálfri. Rimskíj-Korsakov leitaðist við að ná fram í verkum sínum hlýjum en glæsilegum hljómsveitarhljómi og oft virðist hugmyndaauðgi hans hreinlega engin takmörk sett. Sem dæmi um óvenjulega hljóðfæranotkun í Sheherazade má nefna þegar básúnur spila pianissimo undir forte-strengjaspili í upphafsþættinum. Þá hefur verið á það bent að bútur úr öðrum þætti verksins skýtur aftur upp kollinum, lítt dulbúinn, í tveimur meistaraverkum franskra impressjónista, La mer eftir Debussy og Dafnis og Klói eftir Ravel, enda góð tengsl milli franska tónlistarheimsins og þess rússneska einmitt um þetta leyti.

Rimskíj-Korsakov var áhugamaður um þjóðlega list og þess heyrast merki í tveimur kunnustu hljómsveitarverkum hans, Sheherazade og Rússneska páskaforleiknum. Innblásturinn að Sheherazade fékk hann úr Þúsund og einni nótt, safni egypskra, indverskra og persneskra þjóðsagna sem Antoine Galland gaf út á prenti árið 1704 og fór eins og eldur í sinu um álfuna. Shakriar soldán kveðst fullviss um að allar eiginkonur séu svikular og því strengir hann þess heit að festa sér nýja brúði hvern dag til þess eins að taka hana af lífi að morgni. En brúðurin Sheherazade bjargar lífi sínu með því að segja manni sínum sögur; í þúsund og eina nótt þylur hún hin ýmsu ævintýri soldáninum til mikillar skemmtunar. Að lokum lætur hann af ásetningi sínum og gefur konu sinni grið.

Tónverkið ber undirtitilinn „sinfónísk svíta“ og hver þáttur vísar í ævintýri sögunnar. Upphaflega hafði tónskáldið hugsað sér hlutlausari yfirskriftir: Prelúdía – Ballaða – Adagio – Finale, en komst síðar á þá skoðun að nákvæmari lýsingar gæfu betri raun. „Mig langaði til þess að hlustandinn, ef honum líkaði verk mitt, tæki með sér þau hughrif að tónlistin væri einhvers konar austurlensk frásögn af miklum undrum, en ekki aðeins fjórir þættir sem leiknir væru hver á fætur öðrum.“

Í upphafi heyrast tvö stef sem snúa aftur síðar í verkinu og tákna söguhetjurnar tvær. Brúnaþungur soldáninn er leikinn af básúnum, djúpum tréblásturshljóðfærum og einradda strengjum, en Sheherazade er túlkuð af einleiksfiðlu og hörpu. Stef hennar tengir saman alla þætti verksins: það er inngangur að fyrsta, öðrum og fjórða þætti og hljómar sem millispil í þeim þriðja. Undir lok verksins fléttast saman stef þeirra beggja, soldánsins og Sheherazade, þegar soldáninn talar blíðlega til konu sinnar og veitir henni grið.

Að öðru leyti er ekki um línulega framvindu að ræða í Sheherazade. Verkið samanstendur af fjórum myndum eða stemningum, sem tónskáldið lýsti sem „músíkalskri kviksjá“. Í fyrsta þætti heyrum við ólgandi sjávarganginn sem mætir Sinbað sæfara; annar þáttur sækir innblástur í söguna um fakírinn Kalender prins, sem lendir í ýmsum ævintýrum. Innilegur þriðji kaflinn segir sögu af prinsi og ungri prinsessu sem fella hugi saman – kannski Aladdín og hinni fögru Badur. Strengir leika ástaróð prinsins og léttfætt prinsessan svarar með klarínettuhendingum við slagverksundirleik. Í lokaþættinum er skeytt saman tveimur frásögnum, lýsingu á fjörmiklum hátíðahöldum í Bagdað og heljarinnar ofviðri sem veldur því að skip Sinbaðs sæfara steytir á skeri og brotnar í spón.