EN

Outi Tarkiainen: The Ring of Fire and Love

Outi Tarkiainen (1985) er fædd og uppalin í Rovaniemi í Lapplandi, rétt fyrir sunnan norðurheimskautsbaug en þar er hún nú búsett ásamt fjölskyldu sinni á milli þess sem hún ferðast um heiminn til að fylgja tónlist sinni eftir. Sjálf er hún ekki af samískum uppruna en brothætt frumbyggjamenning og tunga Sama hefur haft djúpstæð áhrif á hana sem og náttúrufarið við heimskautsbaug, hrjóstrug víðerni, hreindýrahjarðir og dansandi norðurljós. Í tónlist hennar má finna ævintýralega litadýrð, næmi fyrir áferð og hljómum, ljósum og skuggum, tengingar í goðsögur, trú og náttúru en sjálf hefur hún sagt að hún trúi á umbreytingarafl tónlistarinnar sem geti skekið og mótað líkt og náttúruöflin.

Tarkiainen hefur fengist við tónsköpun frá unga aldri, lærði að skrifa nótur áður en hún fór að draga til stafs og strax á unglingsárum var ljóst að hún ætlaði að leggja tónsmíðar fyrir sig. Hún nam við Síbelíusarakademíuna, Háskólann í Miami og við Guildhall School of Music and Drama og hefur samið tónlist fyrir alls kyns hljóðfærasamsetningar og flytjendur; stórsveitir, söngraddir, einleikshljóðfæri, kammersveitir og sinfóníuhljómsveitir en á meðal hljómsveita sem hafa pantað verk af Tarkiainen eru Fílharmóníusveit BBC, Sinfóníuhljómsveitin í San Fransisco og Finnska útvarpshljómsveitin. Árið 2018 hlaut hún tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir saxófónkonsertinn Saivo, kraftmikið og tindrandi hljóðævintýri svo vísað sé í umsögn dómnefndar en verkið var samið fyrir Tapiola Sinfonietta og finnska saxófónleikarann Jukka Perko, einn af fremstu jazzsendiherrum Finna. Í tónmáli Tarkiainen má greina þræði úr ólíkum áttum; þegar hún er spurð um áhrifavalda tiltekur hún þó sérstaklega tvo brautryðjendur sem hafa opnað dyr að heimum sem einu sinni voru konum lokaðar, finnska tónskáldið Kaiju Saariaho og bandaríska tónskáldið og stórsveitarstjórnandann Mariu Schneider.

Hljómsveitarverkið The Ring of Fire and Love var frumflutt árið 2021 af Konunglegu fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Sakari Oramo. Verkið býr yfir nær öfgafengnum andstæðum og krafti enda hverfist það um náttúruhamfarir í ýmsum skilningi. The Ring of Fire eða eldhringurinn hefur margræða merkingu, getur vísað í eldhringinn sem umlykur sólina við sólmyrkva, til samnefnds eldfjallasvæðis á Kyrrahafshrygg sem er eldvirkasta svæði veraldar og til fæðingareynslu konu; The Ring of Fire er hugtak sem er notað um þá yfirþyrmandi tilfinningu sem getur altekið konu í fæðingu.

The Ring of Fire and Love er tengt þremur öðrum verkum Tarkiainen sem hverfast einum þræði um reynsluheim kvenna. Hljómsveitarverkið Midnight Sun Variations var frumflutt af Fílharmóníusveit BBC á Proms-tónlistarhátíð breska ríkisútvarpsins árið 2019 og systurverkið Songs of the Ice var frumflutt af Útvarpshljómsveitinni í Finnlandi það sama ár. Yngst í þessari röð er fyrsta ópera tónskáldsins til þessa, A Room of One's Own eða Sérherbergi sem byggir á samnefndri tímamótaritgerð Virginiu Woolf frá 1929 en óperan var frumsýnd í Hagen í Þýskalandi í maí síðastliðnum og hlaut frábærar viðtökur.

Tónlistin á Íslandi
Þetta er frumflutningur verksins The Ring of Fire and Love á Íslandi en Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einu sinni áður flutt verk eftir Outi Tarkiainen, í febrúar 2021 þegar Songs of the Ice var á dagskrá sveitarinnar.