EN

Páll Ísólfsson: Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar

Páll Ísólfsson (1893–1974) var einn atkvæðamesti tónlistarmaður Íslands um miðja síðustu öld. Auk starfa sinna sem dómorganisti gegndi hann ýmsum lykilstöðum í tónlistarlífinu, meðal annars sem tónlistarráðunautur Ríkisútvarpsins og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík. Páll var meðal þeirra sem áttu frumkvæði að því að Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð vorið 1950. Þá var fyrirséð að Þjóðleikhús yrði vígt innan skamms og var ákveðið að koma á fót fullskipaðri hljómsveit sem gæti þjónað bæði Ríkisútvarpi og Þjóðleikhúsi og auk þess flutt opinbera sinfóníutónleika. Til starfseminnar rynni það fé sem Ríkisútvarp og Þjóðleikhús myndu hvort eð er verja í þessu skyni, auk styrkja frá ríki og borg.

Því er við hæfi að Páll Ísólfsson eigi upphafstónana á 70 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Sú tónlist sem hér hljómar varð til fimm árum áður en hljómsveitin tók til starfa. Leiksýningin Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar var byggð á sögum og kvæðum listaskáldsins góða og frumflutt í leikstjórn Lárusar Pálssonar á Listamannaþingi í Trípolíbíói á hundrað ára ártíð skáldsins árið 1945. Halldór Laxness valdi úr verkum hans og vann leikgerðina þannig til flutnings að ramminn var „Grasaferð“ Jónasar. Pilturinn og stúlkan eru á grasafjalli og hann er látinn segja henni ýmsar sögur.

Páll lagði leikgerðinni til sjö þætti fyrir strengjasveit auk tveggja sönglaga sem hafa síðan notið vinsælda: Sáuð þið hana systur mína og Kossavísur. Fjórir þættir verksins hljóma á tónleikunum í kvöld. Forleikurinn hefst með ábúðarfullum tónum en síðan taka við tilbrigði um Sáuð þið hana systur mína. Næsti þáttur ber yfirskriftina „Þjóðlag“ en þó er stefið frumsamið. Það er fremur þungbúið og gæti allt eins hafa verið kveðið af gamalli konu í torfbæ; það á raunar sitthvað skylt við annað leikhúslag Páls, Herrann sé eina huggun mín úr Gullna hliðinu frá árinu 1941. Þjóðlagið hljómar einradda í fyrstu en síðan í fagurri hljómsetningu. Því næst hljóma tveir frumsamdir dansar í íslenskum stíl þar sem Páll temur sér síkvik taktskipti rímnalaga, og eru þessir vikivakar fágæt dæmi um þjóðleg áhrif í tónskáldskap hans.