EN

Páll Ísólfsson: Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar

Páll Ísólfsson (1893–1974) gegndi lykilhlutverki í mótun íslensks tónlistarlífs á 20. öldinni, sem dómorganisti, tónskáld og tónlistarforkólfur. Páll stundaði orgelleik og tónsmíðar í Leipzig á öðrum áratugi 20. aldarinnar. Heimkominn tók hann við stjórn Lúðrasveitar Reykjavíkur og gerðist svo fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1930, tónlistarráðunautur Ríkisútvarpsins það sama ár, dómorganisti frá árinu 1939 og einn að hvatamönnum að stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1950. Páll var virtur og eftirsóttur orgelleikari og naut alþjóðlegrar viðurkenningar sem slíkur. Sem tónskáld var Páll undir sterkum áhrifum af þýskri rómantík 19. aldarinnar; eftir hann liggja orgelverk, hljómsveitarverk, einleiksverk, einsöngslög, kórverk og tónlist fyrir leikhúsið.

Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar tilheyrir síðastnefnda flokknum, samin fyrir sýningu á Listamannaþingi í Trípolíbíói 26. maí 1945, á hundrað ára ártíð skáldsins. Sýningin byggði á ljóðum og sögum Jónasar Hallgrímssonar sem Halldór Laxness hafði valið til flutnings en leikstjórn var í höndum Lárusar Pálssonar. Rammi verksins er Grasaferð Jónasar, pilturinn segir systur sinni sögur og kvæði sem lifna við á sviðinu í meðförum leikhópsins þar sem saman fléttast skáldskapur, dans, látbragð og söngur.

Tónlist Páls samanstendur af sjö þáttum fyrir strengjasveit auk tveggja sönglaga sem síðan hafa öðlast sjálfstætt líf; Sáuð þið hana systur mína og Kossavísur. Tónlist Páls er létt og hrífandi í bland við þjóðlega og svolítið fornlega tóna, þar sem til dæmis má heyra notkun tónskáldsins á óreglulegum takti hinna íslensku rímnalaga.