EN

Páll Ísólfsson: Veislan á Sólhaugum

Tónlistina við Veisluna á Sólhaugum samdi Páll Ísólfsson árið 1943 fyrir uppfærslu Norræna félagsins í Iðnó á samnefndu leikriti Henrik Ibsen. Um leikstjórn sá hin dáða stórleikkona Gerd Grieg sem var hér á vegum norsku útlagastjórnarinnar í London. Gerd Grieg (gift skáldinu Nordahl Grieg sem var fjarskyldur frændi tónskáldsins) stýrði og lék í fjölda leiksýninga hérlendis á dögum seinni heimsstyrjaldar, flestar eftir Ibsen og Björnson en sýningarnar höfðu mikil áhrif á íslenskt leikhúslíf, báru með sér ferskan andblæ og alþjóðleg viðmið.

Veislan á Sólhaugum var frumsýnd 17. maí 1943, á þjóðhátíðardegi Norðmanna og í skugga hernáms nasista en allur ágóði ran til Noregssöfnunar. Frumsýningin hefur verið tilfinningaþrungin, tilkomumikil og virðuleg frá upphafi til enda að því segir í einu bæjarblaðinu, hrifning áheyrenda mikil og lófatakið náði hámarki sínu í lokin þegar leikstjórinn, frú Grieg, kom inn á leiksviðið með norska fánann. Þá var hrópað ferfalt húrra fyrir Noregi.

Þetta var í fyrsta sinn sem Páll Ísólfsson var fenginn til að semja tónlist fyrir leiksýningu, yngri eru Myndabók Jónasar Hallgrímssonar (1945) og Gullna hliðið frá 1950. Það varð mál manna að Veislan á Sólhaugum væri ein allra íburðarmesta og glæsilegasta sýning sem sést hefði á fjölum íslensks leikhús, leikmynd, búningar og umgjörð öll mun tilkomumeiri en íslenskir leikhúsgestir áttu að venjast. Tónlist Páls átti stóran þátt í vinsældum verksins en hann stýrði hljómsveitinni á sýningum. Tónlist Páls grípandi og björt, með viðeigandi þjóðlegum blæ en sögusvið leikritsins er Noregur á 14.öld þar sem þjóðvísur, þjóðsögur og ævintýri gegna stóru hlutverki.