EN
  • Páll Ragnar Pálsson

Páll Ragnar Pálsson: Crevace

Páll Ragnar Pálsson (f. 1977) lauk doktorsnámi í tónsmíðum frá Eistnesku tónlistarakademíunni í Tallinn árið 2014 en áður hafði hann numið við Listaháskóla Íslands, auk þess sem hann lék um árabil með rokkhljómsveitinni Maus. Á fjölbreyttum verkalista hans eru kammerverk, kórtónlist og hljómsveitarverk auk útsetninga fyrir hljómsveit. Fiðlukonsert Páls, Nostalgia, hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2013 og samnefnd plata kom út sumarið 2017. Sellókonsertinn Quake, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti á Myrkum músíkdögum 2018, hlaut aðalverðlaun á alþjóðlega tónskáldaþinginu (International Rostrum of Composers) í Búdapest síðastliðið vor. Páll Ragnar kennir tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og er í stjórn Tónskáldafélags Íslands.

Páll Ragnar segir um konsertinn Crevace: „Haustið 2015 var ég viðstaddur jöklamælingar í Austur-Skaftafellssýslu þar sem bróðir minn hefur í allnokkur ár mælt framgang eða hop jöklanna. Amma okkar í móðurætt fæddist í Suðursveit og við ólumst upp við sögur af lífinu á þessari litlu landræmu milli jökuls og sjávar; því hefur staðurinn tilfinningalegt gildi innan fjölskyldunnar. Í mælingunni kom fram, eins og mátti búast við, að líkt og undangengin ár höfðu jöklarnir hopað. Jörðin gengur nú í gegnum hröðustu hitabreytingar sem orðið hafa síðustu 1000 árin og alls óvíst hvert stefnir í þeim málum, hlýnunin er fordæmalaus. Hugsanir um hækkandi hitastig jarðar, bráðnun jökla og orkuna sem losnar úr læðingi, þessar óskiljanlegu stærðir sem mannkynið þarf að kljást við á næstunni, í bland við persónulegar hugleiðingar um líf forfeðra minna á suðausturhorni landsins og náttúrunnar þar, voru mér innblástur að verkinu.“

Crevace er gamalt franskt orð yfir jökulsprungu. Mér fannst það eiga vel við inntak verksins og minna á að jöklarnir hafa fylgt mannkyninu alla tíð. Þeir gliðna svo sannarlega þessa dagana, landsvæðið á suðausturhorninu rís um fjórtán millimetra á ári vegna þungans sem losnar við bráðnun jöklanna. Lýsingar vísindamanna verða allt að því ljóðrænar í þessu gríðarstóra samhengi. Þegar ísinn á jöklinum hefur þynnst svo mikið að hann skríður ekki lengur undan eigin þunga er talað um að jökullinn sé dauður. Í gegnum lög jöklanna má svo ekki aðeins lesa árin, líkt og með hringi í trjám, heldur er ísinn mynd af tíðinni á hverju ári. Þar má lesa hvernig síðustu nokkur ár og mánuðir hafa verið. Jöklamenn kalla þetta minni. Því má segja að jökullinn muni, hann hreyfi sig, gefi frá sér hljóð, lifi og deyi.“