EN
  • Páll Ragnar Pálsson

Páll Ragnar Pálsson: PLAY – Konsert fyrir Martin Kuuskmann

Páll Ragnar Pálsson (f. 1977) hóf feril sinn í tónlist með rokkhljómsveitinni Maus, sem naut mikilla vinsælda á Íslandi á sínum tíma. Þegar Maus lagði upp laupana færði Páll sig yfir í raftónlist áður en hann ákvað að snúa sér alfarið að klassískum tónsmíðum. Þessi fjölbreytti bakgrunnur hefur mótað tónskáldið sem Páll er í dag og setur mark sitt á tónsmíðar hans. Árið 2007 útskrifaðist Páll með bakkalárgráðu frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Í kjölfarið hélt hann til Eistlands í framhaldsnám. Þar lauk hann bæði meistara- og doktorsprófi í tónsmíðum frá Eistnesku tónlistar- og leikhúsakademíunni undir handleiðslu Helenu Tulve, einu fremsta tónskáldi Eystrasaltslandanna. Eistland hefur veitt Páli ómetanlegan innblástur. Landið er einstakur menningarlegur suðupottur þar sem austur-evrópskur spíritúalismi mætir vestrænni tónsmíðartækni. Umhverfið þar einkennist af djúpstæðri virðingu fyrir listrænum sköpunarkrafti, en um leið má finna fyrir þunga pólitískrar fortíðar sem setur svip sinn á menningarlífið.

Fagottkonsertinn PLAY var sameiginleg pöntun Sinfóníuhljómsveitar Eistlands og Kymi Sinfóníettunnar í Finnlandi. Verkið var frumflutt í Tallinn, Kotka og Kuusakoski í byrjun árs 2022 undir stjórn Olari Elts, með Martin Kuuskmann sem einleikara. Páll lýsir tilurð verksins á eftirfarandi hátt: „Þegar Martin Kuuskmann bað mig um að semja fyrir sig konsert hugsaði ég strax að ég vildi að verkið snerist um hann. Ekki bara Martin sem tónlistarmann heldur einnig sögu hans og anda, breytinguna frá því að alast upp í Eistlandi á 8. og 9. áratugnum og flytjast svo til Bandaríkjanna þar sem hann byggði upp feril sinn og líf. Mér varð einnig ljóst að verkið yrði þakklætisvottur til Eistlands fyrir allt sem landið hefur gefið mér, bæði tónlistarlega og persónulega. Þegar ég hóf vinnu við verkið tók ég viðtal við Martin og bað hann að lýsa fyrir mér lífi sínu sem ungur tónlistarnemi í Eistlandi. Hann sagði mér frá námi sínu í Nõmme tónlistarskólanum og hvernig hann gekk í gegnum skóginn á leið sinni þangað. Mér varð ljóst að þetta voru bókstaflega sömu aðstæður og þegar ég var í tónsmíðanámi. Ég gekk þessar sömu götur, í gegnum sama skóginn á mikilvægustu mótunarárum mínum sem tónskálds. Þetta setti stemninguna fyrir fyrsta þáttinn (Pine Tree Echoes) og sótti ég innblástur í hljóð, áferð og andrúmsloft svæðisins. Í huga mér var eins og Martin væri þarna að leika skóginn... Ég vann að öðrum þættinum (Distortion) sumarið 2022 þegar ég og fjölskylda mín bjuggum í Uus Maailm hverfinu í Tallinn. Á íslensku myndi nafnið á hverfinu vera „Nýji heimurinn“ - sem er táknrænt heiti fyrir verk um mann sem flutti til Ameríku á umbrotatímum í sögu heimalands. Ég elska mjúku litina þar, hæga tempóið og þokukennt andrúmsloftið, og gat fundið hvernig stemningin smaug inn í meðvitund mína og þaðan inn í tónsmíðina. En undir niðri voru einnig þyngri hugsanir um breytingar á öllum sviðum heimsins og hversu berskjölduð við stöndum gagnvart þeim. Síðasti þátturinn er einskonar „eftir flóðið“ stemning þar sem tónlistin hreyfist í mjúkum bylgjum og fagottið „syngur“ fyrir okkur eins og frá fjarlægri strönd.“

Þetta er ekki fyrsta verkið sem Páll semur fyrir Kuuskmann, en hann samdi einnig konsert fyrir flautu og fagott fyrir Hallfríði Ólafsdóttur og Kuuskmann sem þau fluttu á Myrkum músíkdögum árið 2019. PLAY er tileinkað minningu Hallfríðar. Í Play gefur Páll Kuuskmann færi á að sýna hæfileika sína sem einleikara og skapar um leið tónræna frásögn af lífi hans. Verkið endurspeglar þá djúpu tengingu sem Páll hefur myndað við Eistland og hvernig landið hefur mótað tónlistarlega sýn hans. Með því að tvinna saman hljóðheim náttúrunnar og persónulega reynslu skapar Páll margslungið verk sem byggir brú milli fortíðar og nútíðar, austurs og vesturs, náttúru og mannlegrar reynslu.