EN
  • Páll Ragnar Pálsson

Páll Ragnar Pálsson: Quake

Páll Ragnar Pálsson (f. 1977) lauk doktorsnámi í tónsmíðum frá Eistnesku tónlistarakademíunni í Tallinn árið 2014 en áður hafði hann numið við Listaháskóla Íslands, auk þess sem hann lék um árabil með rokkhljómsveitinni Maus þangað sem að vissu leyti má rekja hugmyndir hans um hljóð. Í tónsmíðum sínum sækir Páll í austur-evrópska tónsmíðahefð og verkum hans má lýsa sem organísku línulaga umbreytingaferli með sterkum andlegum undirtón. Á fjölbreyttum verkalista hans eru kammerverk, kórtónlist og hljómsveitarverk auk útsetninga fyrir hljómsveit. Fiðlukonsert Páls Nostalgia hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2013 og samnefnd plata kom út sumarið 2017 hjá Smekkleysu. Páll Ragnar kennir tónsmíðar við Listaháskólann og er í stjórn Tónskáldafélags Íslands.

Sellókonsertinn Quake var saminn að beiðni Elbphilharmonie-hljómsveitar norðurþýska útvarpsins og Fílharmóníusveitar Los Angeles og tileinkaður Sæunni Þorsteinsdóttur. Hún frumflutti hann ásamt fyrrnefndu hljómsveitinni í Hamborg í febrúar á liðnu ári undir stjórn Jonathans Stockhammer. Verkið var síðan flutt í Los Angeles með Fílharmóníusveitinni þar, undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Verk Páls Ragnars kvikna gjarnan út frá hugleiðingum hans um efni sem liggja utan heims tónlistarinnar. Honum eru náttúruöflin hugleikin og um leið sú samsvörun sem sjá má með þeim og hræringum mannssálarinnar. Hann valdi eftirfarandi lýsingu úr skáldsögunni Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur sem inngangsorð sellókonsertsins:

„Í þúsundir ára safnaðist upp spenna í kvikunni og hún losnaði á einu augabragði í stórum skjálfta svo bergið undir fótum mér gliðnaði og steingervingar og silfurkristallar brutust upp á yfirborðið, löngu liðnir atburðir grafnir í eldgömul lög af jarðefnum, áður óþekktir hverir gusu og allt sem áður var varð að einhverju nýju, landslagið verður aldrei samt og áður. Ég stari ofan í hyldýpið, sprunguna í lífi sjálfrar mín, og heyri hvernig það brestur allt í kringum mig.“