EN

Paul Dukas: Lærisveinn galdrameistarans

Óræð ólga liggur í loftinu í upphafi tónaljóðsins Lærisveinn galdrameistarans eftir Paul Dukas (1865-1935), iðandi tónar í strengjum boða að ekki sé allt með felldu og blásarar ýta undir dulúðina. Svo fer allt í gang, ógnvekjandi spenna færist í aukana í vélrænum takti, sífellt hraðari, þar til höstugir lokatónarnir kveða við.

Tónaljóðið, sem Dukas kallaði reyndar scherzo eða glettu, var frumflutt í maí 1897 og tónskáldið varð frægt á einni nóttu. Lærisveinn galdrameistarans er eitt vinsælasta hljómsveitarverk sem samið hefur verið - stutt, snaggaralegt og þéttriðið ótal litbrigðum. Dukas vinnur í tónsmíðinni með söguþráðinn í hundrað árum eldri ballöðu með sama nafni eftir þýska rithöfundinn Johann Wilhelm von Goethe. Þar segir frá því þegar galdrameistari nokkur bregður sér frá og skilur lærisvein sinn eftir til að sinna húsverkum, svo sem að sækja vatn. Sveininum þykir þetta þreytandi iðja og bregður á það ráð að nota galdur meistara síns til að létta sér störfin, hann setur kústinn í vatnsburðinn. Tök lærisveinsins á listinni eru ekki meiri en svo að allt fer úr böndunum, kústurinn sækir fötu eftir fötu af vatni, sveinninn reynir að höggva kústinn í tvennt en þá bregður svo við að kústurinn margfaldast, fullkomin ringulreið ríkir og vatnið flæðir um allt… þar til galdrameistarinn snýr aftur og léttir álögunum, með þeim orðum að einungis hann megi kalla til hina duldu krafta.

Lærisveinn galdrameistarans er þekktasta tónsmíð Dukas, sem var alla tíð gagnrýninn á eigin verk og átti jafnvel til að eyðileggja þau. Síðustu árin starfaði hann sem kennari í tónsmíðum, meðal nemenda hans voru Messiaen, Duruflé, Rodrigo og Ponce.

Árið 1940, fimm árum eftir lát Dukas, varð tónlist hans við kvæðið um lærisvein galdrameistarans hluti af Disneymyndinni Fantasíu, en þar er Mikki mús í hlutverki lærisveinsins ólánsama, sem beitti göldrum sem hann réði ekki við.