EN

Pjotr Tsjajkofskíj: Sinfónía nr. 6

 

Pjotr Iljitsj Tsjajkofskíj (1840–1893) hóf að semja sjöttu sinfóníu sína í febrúar 1893 og hún var fullgerð í ágúst sama ár. 28. október stjórnaði Tsjajkofskíj frumflutningi hennar í St. Pétursborg; níu dögum síðar var hann allur. Árið 1979 birti rússneskur tónlistarfræðingur tilgátu þess efnis að Tsjajkofskíj hefði framið sjálfsmorð eftir að upp komst um ástarsamband hans við ungan hefðarmann. Tilgátan reyndist þó ekki á rökum reist og í dag efast fáir um að Tsjajkofskíj hafi raunverulega látist úr kóleru eftir að hafa í ógáti drukkið ósoðið vatn. Engu að síður hefur sviplegur dauðdagi Tsjajkofskíjs ýtt undir hugmyndir um að sjötta sinfónían sé þungbúin hinsta kveðja og að með smíði hennar hafi tónskáldið að nokkru fengið útrás fyrir sálarkvalirnar sem þjökuðu það síðustu mánuðina.

Þó var Tsjajkofskíj þrátt fyrir allt fullur lífsgleði síðustu mánuðina sem hann lifði. Þegar hann hafði lokið við sinfóníuna skrifaði hann útgefanda sínum: „Ég hef aldrei áður fundið fyrir slíkri sjálfsánægju, slíku stolti, slíkri gleði, eins og í vitundinni um að ég hafi í raun og veru skapað þessa fallegu tónsmíð.“ Meðan á æfingum stóð á hann að hafa sagt: „Þetta er án efa besta – og sannarlega einlægasta – tónsmíð mín, og mér þykir vænna um hana en nokkurt annað verk sem ég hef skapað.“ Hvort myrk endalok verksins eru til marks um hugarástand sem hann kaus að nefna ekki í bréfum sínum verður hver að meta fyrir sig.

Upphaf verksins er í hæsta máta óvenjulegt. Djúpradda fagottsóló fikrar sig upp gegnum óræðan nið kontrabassanna, og stundum taka víólurnar undir, einnig á sínu lægsta tónsviði. Smám saman byggir Tsjajkofskíj upp tilþrifamikinn hápunkt, og kynnir því næst til sögunnar eitt stórkostlegasta – og frægasta – stef sitt. Ef vel er að gáð er þetta stef eins konar umbreyting á blómaaríu Don José úr Carmen, og Tsjajkofskíj biður um að það sé leikið „blíðlega, teygjanlega, og mjög syngjandi“. Þegar hin fagra laglína er horfin úr augsýn tekur við dramatískur kafli þar sem hápunkturinn er stef úr sálumessu rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.  

Tsjajkofskíj var vafalítið eitt besta valsatónskáld síns tíma utan Vínarborgar. Milliþættir sinfóníunnar eru tveir dansar, og sá fyrri er einmitt vals, þótt yfirbragðið sé nokkuð óvenjulegt. Vorið 1893 var Tsjajkofskíj með tvö verk í smíðum: sjöttu sinfóníuna og píanólögin op. 72. Í síðarnefnda verkinu er kafli sem ber yfirskriftina „Valse à cinc temps“ – vals með fimm slögum í takti í stað þriggja eins og venjan er. Hann leikur sama leikinn í sjöttu sinfóníunni. Valsinn hentar því óvenju illa á dansgólfið, en hann er engu að síður skemmtilega óhefðbundinn og heillandi. 

Þriðji kaflinn byrjar sem léttfætt scherzo, sem fyrr en varir ummyndast í dramatískan mars. Lokakaflinn er óhefðbundnasti þáttur sinfóníunnar. Kannski var það einmitt það að henni skuli ljúka á hægum kafla sem féll áheyrendunum ekki allskostar í geð við frumflutninginn. Síðar varð algengara að enda sinfóníu á þennan hátt eins og heyra má til dæmis í Níundu sinfóníu Mahlers. Tsjajkofskíj kynnir tvö aðalstef til sögunnar – hið fyrra tregafullt, hið seinna bjartara. Tónlistin fjarar út, myrkur lokahljómurinn verður stöðugt veikari og rennur að lokum út í þögnina.