EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Fiðlukonsert í D-dúr, 3. kafli, Finale: Allegro vivacissimo

Pjotr Tsjajkovskíj samdi fiðlukonsert sinn í mars 1878 meðan hann dvaldi við Genfarvatnið í Sviss og jafnaði sig eftir mikið skipbrot í einkalífinu; illa ígrundað, stutt og afar óhamingjusamt hjónaband sem lokið hafði með sjálfsvígstilraun. Tsjajkovskíj var eyðilagður og óviss um að hann gæti nokkurn tímann aftur fengið nýjar tónsmíðahugmyndir. Það var heimsókn hins unga og glæsilega fiðluleikara Jósefs Koteks sem tendraði ástríðu og sköpunarkraft Tsjajkovskíjs á ný. Saman lásu þeir í gegnum fjölda kammerverka heimavið eitt síðdegið og aðeins örfáum dögum síðar var Tsjajkovsíj tekinn til við að semja grípandi og virtúósískan fiðlukonsert sem hann lauk við á innan við tveimur vikum. Kotek varð fyrstur til að spila í gegnum verkið við undirleik tónskáldsins og lýsti hann hrifningu sinni á ytri þáttunum tveimur, en fannst miðkaflinn ekki jafninnblásinn. Tsjajkovskíj samdi því nýjan hægan kafla og gaf þann gamla út undir nafninu Méditation. Tsjajkovskíj tileinkaði Kotek þó ekki konsertinn, og má ráða af bréfum hans til útgefanda síns að ástæðan hafi verið sú að hann hafi ekki viljað gefa slúðursögum um ástarsamband þeirra byr undir báða vængi. Þegar konsertinn kom loks fyrir eyru almennings í Vínarborg 1881 hlaut það dræmar viðtökur, rétt eins og hinn glæsilegi píanókonsert sem Tsjajkovskíjs hafði samið þremur árum fyrr. En rétt eins og píanókonsertinn vann verkið á í vitund almennings og er nú með dáðustu konsertum fiðlubókmenntanna.